Dalir: Söguskilti og stofnun Sturlufélags

Ted Andersson flytur lykilfyrirlestur fyrir fullu húsi á alþjóðlegu ráðstefnunni Sturla Þórðarson 1214–2014. Mynd: Árnastofnun.

Þann 12. maí næstkomandi verður efnt til sögulegra viðburða í Dalabyggð. Það er afhjúpun söguskilta og stofnun Sturlufélags.

 

Fyrstu tíðindin verða við afleggjarann að Hjarðarholti rétt fyrir vestan Búðardal klukkan tvö eftir hádegi. Þar verður afhjúpað það fyrsta af fjórum söguskiltum á Gullna söguhringnum. Það er Mjólkursamsalan sem kostar gerð skiltanna sem unnin hafa verið í samvinnu við Hvíta húsið og Sturlunefnd en Vegagerðin sér um að koma skiltunum fyrir.

 

Á skiltinu við Hjarðarholt verður mynd af þeim fóstbræðrum Bolla og Kjartani og af Guðrúnu sem þeir hugsuðu einlægt um ungir menn og heimsóttu að Laugum í Sælingsdal. Næsta skilti verður við Fellsstrandarafleggjarann; þar er Auður djúpúðga aðalpersónan. Ingólfur Örn Björgvinsson teiknaði aðalmyndirnar á skiltunum þar sem Guðrún Ósvífursdóttir, Auður djúpúðga, Eiríki rauði og Sturla Þórðarson eru í lykilhlutverkum.

 

Guðrún Nordal forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar afhjúpar skiltið við Hjarðarholt en við það nýtur hún stuðnings barna úr Auðarskóla í Búðardal.

 

Afhjúpunin fer fram kl. 14:00 en eftir hana verður farið beint í Dalabúð. Þar verður móttaka á vegum Mjólkursamsölunnar og Dalabyggðar. Í Dalabúð bjóða Ari Edwald forstjóri Mjólkursamsölunnar og Kristján Sturluson sveitarstjóri Dalabyggðar gesti velkomna. Börn úr Auðarskóla syngja tvö lög, Kvæðið um fuglana ljóð Davíðs Stefánssonar og lag Atla Heimis Sveinssonar og Hvert örstutt spor ljóð Halldórs Laxness og lag Jóns Nordal.

 

Eftir móttökuna verður stofnað félag til að heiðra og halda á lofti minningunni um Sturlu Þórðarson sagnaritara og afrek hans, Sturlufélag. Þar talar Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu í Reykholti um ritstofur og Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar um Sturlu Þórðarson.

 

DEILA