Velheppnaðir vortónleikar Kvennakórs Ísafjarðar

Kvennakór Ísafjarðar á vortónleikunum í gærkvöldi. Mynd :Kristinn H. Gunnarsson.

Kvennakór Ísafjarðar fagnaði vorinu með tónleikum sínum í Ísafjarðarkirkju í gærkvöldi. Aðrir tónleikar verða í  Félagsheimilinu í Bolungarvík í kvöld, 24. apríl kl 20:00. Einnig verða tónleikar í Guðríðarkirkju í Reykjavík á föstudaginn, þann 26. apríl kl 20:00.

Dagskráin á tónleikunum í gærkvöldi var mjög fjölbreytt og tók mið af undirbúningi kórsins á kórakerppni á Ítalíu um mánaðamótin.

Kórinn er á leiðinni á alþjóðlega kórakeppni til Pesaro á Ítalíu 27. apríl – 1. maí og mun þar  keppa í þremur flokkum; kirkju-, akademískum- og poppflokki.

Á tónleikunum voru flutt keppnislögin og meðal annars verkið Gautede eftir ungverska tónskáldið Peter Tòth, heyr himnasmiður eftir Kolbein Tumason, elsta sálm á Norðurlöndum  ortur á haustdögum 1208. Einsöngvarar voru Svanhildur Garðarsdóttir, Dagný Þrastardóttur, Ásrós Helga Guðmundsdóttir, Guðrún Ósk Ólafsdóttir, Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir og Karolína Sif Benediktsdóttir. Stjórnandi er Beata Joo.Undirleikari er píanóleikarinn og söngvarinn hæfileikaríki Pétur Ernir Svavarsson.

Kórinn stóð sig vel í flutningi og er greinilega vel samæfður. Fjölmargir gestir voru í Ísafjarðarkirkju og fögnuðu vel og innilega góðri frammistöðu.

Næstu tónleikar verða í kvöld í Bolungavík og eru Bolvíkingar og nærsveitarmenn hvattir itl þess að láta ekki tónleikana framhjá sér fara.

DEILA