Leikhúspáskar á Þingeyri

Persónur og leikendur í barnaleikhúsveislu Kómedíuleikhússins og Höfrungs. Aðsend mynd.

Það var sannarlega mikið líf í leikhúsinu á Þingeyri á rétt liðnum páskum. Kómedíuleikhúsið sem hefur sitt sviðsheimili á Þingeyri var þar í aðalhlutverki og sýndi alls 5 sýningar í samstarfi við Höfrung leikdeild. Leikhús þessi tvö, sem hafa verið sérlega leikglöð síðustu árin, settu saman í sannkallaða barna- og fjölskylduleikhúsveislu. Sýnd voru tvö vinsæl leikrit með stuttu hléi á milli. Kómedíuleikhúsið sýndi Dimmalimm sem hefur slegið í gegn í Þjóðleikhúsinu í vetur. Eftir stutt hlé stigu leikarar Höfrungs á svið og fluttu leikritið sívinsæla Karíus og Baktus eftir Thorbjörn Egner í leikstjórn Elfars Loga Hannessonar. Alls var þessi leikhústvenna sýnd fjórum sinnum yfir páskana og hlaut afar góðar undirtektir og aðsókn.

Á Páskadag sýndi Kómedíuleikhúsið hið hugljúfa leikverk Sigvaldi Kaldalóns. Flytjendur voru þau Elfar Logi, leikari, og Sunna Karen Einarsdóttir, músíktalent frá Ísafirði. Leikurinn um Sigvalda hefur verið sýndur víða um land á þessu leikári og var sýningin á Þingeyri sú síðasta. Í bili að minnsta kosti.

Til gamans má geta þess að Kómedíuleikhúsið og Höfrungur leikdeild eru nú að undirbúa leikferð um Vestfirði með Dimmalimm og Karíus og Baktus. Stefnan er sett á Vesturbyggð og Strandabyggð í lok maí. Það er því blómlegt leikhúslífið í leikhúsþorpinu Þingeyri þessi misserin. Enda er lífið leikur.

DEILA