Drangsnes: sveitastelpan Sossa

Grunnskólinn á Drangsnesi frumsýnir á föstudaginn, þann 12. apríl kl 19, í Grunnskólanum á Drangsnesi nýtt leikverk sem unnið er eftir fjórleik Magneu frá Kleifum um sveitastelpuna Sossu.

Eins og á flestum sýningum skólans er tónlist í hávegum höfð og ýmsir dægurlagasmellir sem hljóma í sýningunni, segir Marta Guðrún Jóhannesdóttir skólastjóri.
Allir nemendur skólans taka þátt í uppsetningunni ásamt leikskólabörnunum en samtals eru hér í Kaldrananeshreppi tólf börn á leik- og grunnskólaaldri. Hefð hefur skapast fyrir því að bjóða upp á veglegt hlaðborð að sýningu lokinni sem innifalið er í miðaverði.
Magnea Magnús­dótt­ir rit­höf­und­ur frá Kleif­um í Kald­baks­vík fæddist 1930 og lést árið 2015.Hún ólst upp á Kleif­um og flutti 15 ára að Drangs­nesi og 19 ára til Skaga­strand­ar. Hún fór í Kvenna­skól­ann á Staðar­felli og nam við Tóvinnu­skól­ann á Sval­b­arði. Eft­ir það bjó hún í Eyjaf­irði og flutt­ist 1959 til Ak­ur­eyr­ar.
Magnea skrifaði fjölda barna­bóka og eins bæk­ur fyr­ir full­orðna. Á meðal vin­sælla barna­bóka Magneu má nefna sjö bæk­ur um Hönnu Maríu, Sossu-bæk­urn­ar og var ein þeirra m.a. þýdd á dönsku, bæk­urn­ar um Tobías og sög­urn­ar úr Krumma­vík. Þá skrifaði hún skáld­sög­urn­ar Karlsen stýri­maður, Hold og hjarta og Í álög­um.
DEILA