Vestfirska vísnahornið 28. mars 2019

Horft út Ísafjarðardjúp. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þátturinn hefst á ljóðabréfi  frá Indriða á Skjaldfönn:

Klausturmál voru mikil guðsgjöf fyrir hagyrðinga og ég tel ekki nokkurn vafa á því að ef bestu vísurnar væru teknar saman í bók yrði hún örugglega á metsölulista fyrir næstu jól. Þessi vísa sem ég fann við  tiltekt í fjárhúshlöðu krotaða utan á naglabakka lítur einmitt að því:

 

Klausturmenning geysigóð

gleður horska rekka

og allir fóru að yrkja ljóð

um þá sem þar drekka.

 

Jafndægur á vori voru nýlega og rétt að setja sig stundum í mýkri gírinn.

 

Burtu mjakast myrkravöldin

meiri birta er á kvöldin.

Áður en ég fætur fer

feiminn geisli dillar sér.

 

Öfugmælavísan er um konu gærdagsins.

 

Skilaði Dómi vel á veg.

Víst í hugsun ekki treg.

Auðmjúk jafnan.  Ætla ég.

Afar há og glæsileg.

 

Á sínum tíma kölluðu Sjálfstæðismenn núverandi forsætisráðherra gluggaskraut. Nauðsynlegt er að lesendur hafi það í huga vegna næstu vísu.

 

Gluggaskrautið heimtist heim

hafandi flogið vítt um geim.

Eftir nokkurt orðaskak

Andersínu burtu rak.

 

Daginn áður en gluggaskrautið heimtist heim þverneitaði dómsmálaráðherra því að hún myndi víkja.

En nú er komið annað hljóð og annar dagur

Andersen sú frekja farin

fagnar allur þjóðarskarinn.

 

Ég spáði Brynjari Níelssyni dómsmálaráðherrastólnum, en varð ekki sannspár.

 

Okkar lán er ekkert smá.

enginn slíku synjar.

Úr því Sigga er fallin frá

fer í stólinn Brynjar.

 

Batnar ekki Brynjars ráð

býsna fátt til varna.

Hefur ekki hlotið náð

helvítið að tarna.

 

Nú stefnir á innflutningi á sjálfdauðu kjöti í boði Kristjáns Þór Júlíussonar, landbúnaðarráðherra.

Franskir bændur fjölmenntu á dráttarvélum með mykjudreifara til Parísar þegar stjórnvöld voru að níðast á þeim og ég var lengi að vonast eftir að Sindri bændasamtakaformaður mætti með sinn á Austurvöll, en hann kaus að skríða inn í banka.

 

Sjálfdautt kjöt við borðum brátt.

Best er það vafalaust alveg hrátt.

Þá verður nú koti kátt.

Á kamrinum setið dag og nátt.

 

Á fésinu hefur staðið grimm orðahríð milli Ásbjörns í Djúpuvík Hvalárvirkjunarmanns og Elíasar Svavars Drangajarls og virkjunarandstæðings. Elli er skeggjaður, skarpleitur og hvassbrýndur og ekki öfunda ég Ásbjörn ef þeir mætast á Ófeigsfjarðarheiði í sumar, en þar gæti nú að öllu óbreyttu stefnt í mannskæð átök.

 

 

Djúpvíkinga daprast líf.

Dauðans eldar funda.

Elli, Strandahetja og hlíf

hleður fallbyssuna.

 

Og svo fékk fyrrum sýslumaður Barðstrendinga rækilega á baukinn.

Sýslumanni fatast flest.

Falsons þjónar lundinni.

Reyndist enn með ráðabrest.

Rassskelltur af Stundinni.

 

Jón Atli Játvarðsson á Reykhólum fylgdist sem aðrir landmenn með fréttum af flugfélaginu með útlenda nafnið. Um það hafði hann þetta að segja:

Í dag er verið að þráast við að bjarga flugfélagi sem í gegnum öll þessi ár er búið að ganga fyrir jarðefnaeldsneyti til misjafnrar þróunar menningarsvæða heimsins.

Stundargróða vel til velst
velta gamblsins teninga.
Þótt nú Skúli þurfi helst
þolinmóða peninga.

Jón Atli blandaði sér í umræðurnar um hælisleitendurna sem mótmælt hafa á Austurvelli og lagði út af hneykslun Halldórs Blöndal fyrrverandi forseta Alþingis:

Halldór getur svo vel gert betur. Ég skil vel æsinginn í honum við það að nú sé vegið að Vestfirðingi sem er fyrir löngu síðan dauður.

Það stingur í stúf við ráðandi háttarlag í dag, miðað við það sem lifandi Vestfirðingar eru látnir hafa til tevatnsins eftir að fiskimiðunum var rænt af þeim fyrir 30 árum síðan.

Eftir kynni mín af Jóni Sigurðssyni í gegnum sögukennslu Jónasar frá Hriflu, þá var Jón Sigurðsson slíkur afburðamaður að hann hefði ekki hikað við að verða druslugína á tuttugustu og fyrstu öldinni fyrir hælisleitendur í fáeinar vikur.

Ekki síst ef að ríkisstyrkt áróðurssamtök „Landvernd“ sægju sóma sinn í því að láta Vestfirðinga í friði við að rétta úr kútnum efnahagslega eftir „Tyrkjarán“ Reykjavíkurakademíunnar, með ráðstöfun í sjávarútvegi.

Þetta gæti Halldór orðað til dæmis með viðlíka orðum.

Hælis leita höfðingjar
heldur illa staddir.
En löggur eins og læmingjar
leggjast útaf saddir.

Látum þetta vera gott í þessum vísnaþætti. Nú bíðum við bara vorsins.

Kristinn H. Gunnarsson

 

 

DEILA