Leikritið Dúkkulísa verður frumsýnt á Hólmavík í kvöld

Dúkkulísa í uppfærslu Leikfélags Hólmavíkur.

Leikritið Dúkkulísa verður frumsýnt á Hólmavík föstudaginn 22. febrúar kl. 19.00, í Félagsheimilinu. Önnur sýning er á sunnudaginn og þriðja á þriðjudaginn. Verkið er leikið af unga fólkinu á Hólmavík og er hluti af verkefninu Þjóðleik.

Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem haldin er annað hvert ár á landsbyggðinni að frumkvæði Þjóðleikhússins og í góðu samstarfi við menningarráð og marga aðra aðila á landsbyggðinni.
Þekkt íslensk leikskáld eru fengin til að skrifa krefjandi og spennandi verk fyrir 13-20 ára leikara sem svo eru sett upp í hinum ýmsu byggðum landsins. Lokahátíðir eru haldnar að vori þar sem allar sýningar í hverjum landsfjórðungi koma saman á stórri leiklistarhátíð.

Þessi uppsetning er framlag ungra Strandamanna í leiklistarhátíðina Þjóðleik. Dúkkulísa er leikrit samið af Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachman. Leikritið er um fjóra unglinga, krakkarnir ganga í gegnum margt og er það ekki allt auðvelt.

Strandamenn og nærsveitungar eru hvattir þess að kíkja á Dúkkulísuna um helgina.

DEILA