jarðstrengur lagður en ekki tekinn í notkun

Orkustofnun hefur samþykkt 10 ára kerfisáætlun Landsnets.

Í henni kemur fram að lagður verður 132 kV jarðstrengur í Dýrafjarðargöng. Vegagerðin sér um framkvæmd strenglagningarinnar sem er kostuð af Landsneti.
Með tilkomu strengsins verður hægt að auka afhendingaröryggi Breiðadalslínu 1 með því að leggja af kafla hennar sem liggur yfir Flatsfjall í um 750 metra hæð yfir sjávarmáli, þar sem aðstæður til viðhalds og viðgerða eru erfiðar. Framkvæmdir við lagningu strengsins hófust í október 2017 og áætlað er að framkvæmdum ljúki í janúar 2020. Kostnaður er áætlaður 285 milljónir króna.

Verkið er kynnt þannig í áætluninni:

Verkefnið er liður í styrkingu flutningskerfisins á Vestfjörðum í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi á svæðinu. Ástæða þess að ákveðið var að ráðast í verkefnið strax, var sú að nýta glugga sem opnaðist við framkvæmd Vegagerðarinnar við göngin.

Hins vegar er spennusetning á strengnum ekki áætluð fyrr en í október 2025. Það er skýrt með þessum orðum:

Ekki hefur ennþá verið tekin lokaákvörðun um hvenær jarðstrengurinn verður spennusettur, en núverandi viðmið er að spennusetning fari fram eigi síðar en þegar afskriftartíma
Breiðadalslínu 1 lýkur árið 2025.

Niðurstaðan er þá sú að Landsnet vill ekki taka jarðstrenginn í notkun og auka þar  með raforkuöryggi  fyrr en 5 árum eftir að það verður mögulegt með þeim rökum að ekki sé búið að afskrifa núverandi línu yfir fjöllin.

DEILA