Vestfirskir listamenn: Stefán frá Hvítadal

Stefán Sigurðsson frá Hvítadal.

Vestfirskir listamenn

Stefán frá Hvítadal

  1. 16. október 1887 á Hólmavík. D. 7. mars 1933 Bessatungu Saurbæ.

Öndvegisverk: Erla, Vorsól, Jól.

Það er engin þörf að kvarta,

þegar blessuð sólin skín.

Stefán Sigurðsson eða Stefán frá Hvítadal einsog hann kallaði sig, kunni sannlega að orða hlutina. Vormaður í svo mörgum skilningi þess orðs. Hann dýrkaði vorið einsog svo mörg okkar sem á Íslandi búum. Hann var einnig vormaður ljóðlistarinnar kom með nýja strauma sem áttu eftir að hafa áhrif á mörg skáldin.

 

Fyrsti Hólmvíkingurinn

Fyrsti innfæddi Hólmvíkingurinn fæddur 1887. Ungur sendur í fóstur til frænda síns á Ströndum. Seinnameir flutti  fóstri  í Hvítadal sem Stefán kenndi sig síðar við. Var strax mikill bókaormur og hafði meiri unun af lestri en sveitastörfunum. Ungur byrjaði Stefán að yrkja og er hið elsta sem varðveist hefur frá 1899 þegar hann var aðeins 12 ára gamall.

Fór suður að mennta sig en náði eigi að festa hugann við skruddurnar og heldur aftur vestur og nú á Ísafjörð. Þar ræður hann sig sem nema í Prentsmiðju Vestra. Já, upplagt að tengja saman áhugamálið og vinnuna. Hvað er betra fyrir upprennandi skáld að geta prentað sín eigin verk. Svo varð og raunin því þennan vetur birtast hans fyrstu verk á prenti.

Í upphafi árs 1906 gjörist það óhapp að Stefán hrapar niður brattan stiga. Sársaukinn var mikill og sárið sem hann hlaut af fallinu vildi ekki gróa. Hann þráaðist við og leitaði sér eigi lækninga, leitaði frekar í áfengið til að lina kvalirnar. Vínið var hér komið í hans tilveru og næstu árin átti sú iðja bara eftir að aukast.

 

Fótinn af

Haltrandi fer Stefán frá Ísafirði án þess að ljúka prentnáminu. En svo rennur upp örlagaárið 1907. Í febrúar það ár grípur taugaveiki ungskáldið Stefán. Eigi fór þetta vel í hinn brothætta fót einsog hann sagði sjálfur frá síðar: „Upp úr taugaveikinni fékk ég fótarmein. Lauk því svo, að ég missti fótinn ofan við ökklalið.“ Víst var þetta skelfilegt áfall svo ungum manni sem var aðeins 19 ára. Enda er svo sagt að hann hafi aldrei gengið heill til verks eftir fótamissinn. Gervilimir þess tíma voru eigi eins góðir og þeir eru í dag. Nýi fótur Stefáns var úr tré einsog algengt var á þessum tíma. Stubburinn var með leðurhólkum sem var aftur festur með reimum af ýmsum stærðum og hnýtt alveg upp fyrir hné. Fótstubburinn vildi gjarnan bólgna og vel má hugsa sér hve nýstandi sársaukinn var.

Næstu árin flakkar Stefán víða en tollir sjaldan lengi í vinnu. Fer m.a. til Akureyrar ásamt öðru ungskáldi Þórbergi Þórðarsyni. Sá síðarnefndi átti síðan eftir að rita um sinn skáldbróður í Íslenskum aðli.

1912 ákvað Stefán að sigla til Noregs og freista þar gæfunnar. Fær fljótlega vinnu en fóturinn angraði stöðugt.  Ofan í meinið fékk hann hina miskunarlausu berkla og var loks lagður inná heilsuhæli. Skáldið sá nú ekkert ljós í tilverunni lengur. Ritaði meira að segja bréf til vinar síns, hvar hann tjáði honum að nú væri ekkert annað eftir en að slökkva ljósið. En ljósið það er einsog vorið, kemur alltaf aftur. Amorinn var lækningin. Á heilsuhælinu var  myndarleg hjúkrunarkona að nafni Mathilde. Nú tók karl að hressast og var hann henni ævinlega þakklátur þó þau hafi nú eigi gengið upp að altarinu.

 

Söngvar förumannsins

Stefán kemur aftur til Íslands en hefur þó eigi náð fullum bata. Þrátt fyrir heilsuleysi hélt hann áfram að yrkja og í október 1918 kemur út hans fyrsta ljóðabók, Söngvar förumannsins. Engar ýkjur er hér að segja að verkið hafi ollið straumhvörfum í ljóðlistasögu landsins. Hér voru ekki ættjarðarljóðin út um allt sem hafði verið svo móðins til þessa. Nei, hér var ort í fyrstu persónu. Skáldið er í raun að yrkja um sig sjálft að mestu. Stefán sendi frá sér 4 ljóðabækur til viðbótar áður en yfir lauk.

Það er ósjaldan sagt um listamenn að þeir séu gjarnan annars hugar. Einsog með hugann í einhverju verki sem er að mótast hverju sinni. Þegar svo er þá þýðir ekkert við þá að tala, þeir eru bara á tali, og þá við sjálfa sig. Svo var og raunin um okkar Stefán. Sögufróður sagði að þegar Stefán heyrði eigi þegar við hann var talað þá þýddi það eitt að hann var kominn í aðra heima. Þetta var þó eigi gert í hljóði. Nei, því skáldið sönglaði. Var þó víst bara einhver mjög sérstakur tónn og alltaf sá sami en eigi ákveðið lag nema þá bara hans eigið lag. Má því sannlega segja að skáldið hafi ort með sínu lagi.

Árið 1919 gekk Stefán að eiga Sigríði Jónsdóttur. Var þeirra sambúð sérlega ávaxtarsöm því alls urðu börnin 10. Dvöldu hjónin víða þó mest vestra síðast á Bessatungu í Saurbæ hvar skáldið andaðist.

Elfar Logi Hannesson

Aðalheimild:

Ivar Orgland. Stefán frá Hvítadal. Maðurinn og skáldið. 1962 Stefán frá Hvítadal og Noregur. Bókaútgáfa menningarsjóðs 1990.

DEILA