Sjálfsbjörg 60 ára á laugardaginn

Laugardaginn 29. september verður mikið um dýrðir í Nausti, sal Eldriborgara á Hlíf 2, en þá verður haldið upp á 60 ára afmæli Sjálfsbjargar á Ísafirði. Í tilefni þess er félögum og velunnurum boðið í kaffiboð og vonast er eftir að sem flestir sjái sér fært að mæta, til að hvetja félaga áfram í því öfluga starfi sem fram hefur farið undanfarin 60 ár.

Afmælisboðið er ekki síst haldið til þess að heiðra og halda á lofti minningu þeirra sem stofnuðu félagið fyrir 60 árum. Það var stórhuga fólk sem lét fátt stoppa sig þrátt fyrir að margir byggju við skerta starfsgetu. Félagið sem í dag heitir Sjálfsbjörg, félag hreyfihamlaðra á Ísafirði var stofnað 29. september 1958. Sjálfsbjörg og Berklavörn á Ísafirði stofnuðu meðal annars vinnustofu og hófu framleiðslu á ýmiskonar varningi sem seldur var og markaði fjárhagsundirstöðu félagsins. Í dag felst starf félagsins einkum í því að vinna að bættu aðgengi hreyfihamlaðra á svæðinu. Það er mikið enn óunnið og þess vegna eru allir hvattir til að mæta í kaffiboðið á laugardaginn, kynnast félaginu og kynnast því hvernig allir geta lagt sitt á vogarskálarnar til að gera samfélagið okkar gott fyrir alla.

Sæbjörg

bb@bb.is