Safna undirskriftum til að fá Þorstein lækni aftur til starfa

Þeir eru miklir spekingarnir og snillingarnir sem hittast í Ólakaffi á Ísafirði á hverjum degi. Ólakaffi er niður við höfn og karlarnir þar muna tímana tvenna og hafa upplifað ýmislegt. Meðal annars það, að eiga vel flestir líf sitt að launa Þorsteini Jóhannessyni lækni að þeirra sögn. Þess vegna ákváðu þeir, með Hólmberg Guðbjart Arason eða Begga Ara, í broddi fylkingar, að safna undirskriftum fólks sem vill fá Þorstein aftur til starfa á heilsugæsluna á Ísafirði. Blaðamaður BB heimsótti kaffisamsætið og fékk að vita að jafnvel þó kallakjaftarnir þar væru aldrei sammála um neitt, þá væru þeir þó sammála um þetta. Þorsteinn þyrfti að koma aftur. „Hann er ekki allra og alls ekki gallalaus, en það er heldur enginn,“ sögðu þeir æðrulausir. „Hann er svo mikill mannvinur,“ sagði annar, „hann hjálpaði mér mikið,“ sagði sá þriðji. „En fólk verður að geta tekið honum eins og hann er, annars gengur það ekki,“ sagði sá fjórði og svo undu þeir sér í kappræður um útlit undirskriftalistana.

Listarnir liggja frammi í Bónus og bensínstöðunni og voru í Nettó þangað til þeir voru teknir inn á kontór hjá verslunarstjóranum. Á morgun ætlar Beggi að safna þeim saman og athuga hversu margir hafa skrifað undir en að hans sögn voru allir listarnir að fyllast.

Sæbjörg

bb@bb.is