Ferðafólk í hrakningum á Ströndum

Björgunarsveitarfólk frá Hólmavík kom göngumönnum til bjargar. Myndin tengist fréttinni ekki.

Björgunarsveitarfólk frá Norðurfirði og Hólmavík var kallað út rétt fyrir miðnætti í gær í Meyjardal á Ströndum en þaðan barst neyðarkall frá hóp ferðafólks sem var þar í hrakningum.

Um var að ræða 18 manna gönguhóp sem var á göngu um svæðið. Lentu þau í vandræðum við að þvera á en á svæðinu var leiðinda veður, mikið rok og rigning. Þrír bátar með björgunarsveitafólki fóru á staðinn og fyrsti bátur með björgunarmönnum frá Strandasól kom að fólkinu um hálf eitt í nótt og var það kalt og hrakið en amaði ekki annað að því. Var fólkið ferjað í skjól frá veðrinu, en þau voru búin að kveikja eld þarna í fjörunni til að hlýja sér og það hjálpaði þeim eitthvað.

Blaðamaður heyrði í Jónasi Guðmundssyni hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu sem sagði að veðrið hafi verið ansi leiðinlegt og aðstæður erfiðar. „Það var leiðinlegt veður og áin var orðin mjög vatnsmikil. Tveir úr hópnum komust yfir í eyðibýli og gátu hringt á aðstoð. Hópurinn var svo ferjaður að Drangsnesi og gátu þar skipt um föt og hlýjað sér.“ sagði Jónas.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA