Vestfirðingar skemmtu sér konunglega á leik Íslands og Nígeríu

Það voru hressir Vestfirðingar sem voru á leik Íslands á móti Nígeríu á Heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu. Eins og fram kom á BB í vikunni, skaust Árni bóndi á Vöðlum í Önundarfirði beint úr dráttarvélinni og austur til Volgograd með sonum sínum til að hvetja Íslendinga. Ekki dugði það þó til því Íslendingar töpuðu eins og kunnugt er. Ekki dró það kraftinn úr Vestfirðingum, sem skemmtu sér konunglega saman eftir leikinn. „Það var mikil stemming a leiknum og Nígeríubúarnir hressir og skemmtilegir, þó leikurinn sjálfur og úrslitin hafi ekki verið jafn góð og maður vonaði. En allir skemmtu sér vel og það var mikið fjör bæði fyrir og eftir leik,“ segir Eyþór Jóvinsson, Flateyringur í samtali við BB.

Eyþór hefur verið aðeins í Rússlandi undanfarna daga og meðal annars kynnt sér menningu innfæddra og sjósund á staðnum, en hann hefur verið mikill talsmaður þess að aðstaða til sjósunds verði sett upp á Flateyri. Hann ætlar ekki að sækja fleiri fótboltaleiki þó hann verði þarna ytra fram á mánudag en tímann mun hann nota til vettvangsrannsókna.

Sæbjörg
bb@bb.is