Margt í gangi hjá Blábankanum á Þingeyri

Blábankinn er samfélagsmiðstöð á Þingeyri sem var sett á fót til þess að bregðast við niðurskurði á þjónustu í þorpinu og stuðla að atvinnusköpun. Blábankinn heldur utan um ýmsa þjónustuþætti og er jafnframt tengiliður við þjónustuaðila. Blábankinn veitir meðal annars bankaþjónustu fyrir Landsbankann og póstþjónustu fyrir póstinn. Einnig er þar vettvangur fyrir ýmis verkefni og nýsköpun.
Blábankinn var á dögunum eitt fjögurra verkefna sem hlaut viðurkenningu frá fjármálaráðuneytinu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu. Sjá frétt hér.

Ýmislegt hefur verið í gangi hjá Blábankanum upp á síðkastið og til dæmis var Blábankanum var nýlega boðið að taka þátt í ráðstefnu á Grænlandi um nýsköpun á NORA svæðinu, þ.e. Íslandi, Færeyjum, Noregi og Grænlandi, með þátttöku frá norður Kanada. Á mörgum þessara svæða eru afskekt og smá samfélög sem glíma við áskoranir sem Blábankinn reynir að leysa og vakti verkefnið mikinn áhuga.

Íbúar jafnt sem gestir á Þingeyri hafa skipulagt fjölda viðburða í Blábankanum, allt frá kökuskreytingakeppni fyrir ungu kynslóðina til málstofu um heimskautarefinn og HM áhorf. Það sem af er árinu 2018 hafa 44 viðburðir, bæði opnir og lokaðir, verið haldnir í Blábankanum með þátttöku hátt í 600 gesta. Fyrsti nýsköpunarhraðall Blábankans var einnig haldinn síðastliðinn maí með stuðningi frá Upbyggingarsjóði Vestfjarða. Greinilegt er að hraðallinn laðar að frumkvöðla en fleiri sóttu um en komust að. Aðstandendur sjö nýsköpunarverkefna voru í Blábankanum á tímabilinu og unnu að verkefnum sínum.

Ísabella

isabellaosk22@gmail.com