Landsliðsstjörnur framtíðarinnar á Smábæjarleikunum

Flottir þátttakendur á smábæjarleikunum á Blönduósi. Mynd: Birna Friðbjört S. Hannesdóttir.

Íþróttafélagið Héraðssambandið Hrafna Flóki (HHF), sem er starfrækt á sunnanverðum Vestfjörðum, tók þátt í knattspyrnumótinu Smábæjarleikunum um þjóðhátíðarhelgina á Blönduósi. Mótið er árlegt og er þetta fimmta árið í röð sem HHF sendir lið þangað. Það rættist úr veðrinu eftir leiðinlega veðurspá og skemmtu þátttakendur sér konunglega.

Þátttakendur á mótinu eru á aldrinum 5 til 12 ára og eru lið frá minni bæjum landsins sem taka þátt, og þaðan kemur nafnið. HHF var með blönduð lið í öllum flokkum, það er stráka og stelpur saman í liði og gekk það mjög vel. Sumir þátttakendur voru að stíga sín fyrstu spor á knattspyrnumóti og eru strax orðnir spenntir að taka þátt aftur að ári liðnu. Stemningin var góð og fengu keppendur innblástur frá strákunum okkar á Heimsmeistaramótinu, sem kepptu á sama tíma við Messi og félaga og stóðu sig eins og hetjur. Hver veit nema landsliðsstjörnur framtíðarinnar hafi skorað nokkur mörk á iðagrænum völlum Blönduóss við þetta tilefni?

Glæsileg tilþrif hjá knattspyrnufólki framtíðar. Mynd: Birna S. Hannesdóttir.
Stoltir sigurvegarar. Mynd: Birna S. Hannesdóttir.
Litla knattspyrnufólki skemmti sér konunglega. Mynd: Birna S. Hannesdóttir.

Aron Ingi

aron@bb.is