Við ætlum að halda áfram að bæta lífsgæði bæjarbúa því það skilar sér í farsælli framtíð

Arna Lára Jónsdóttir.

BB fór á stúfana og spurði efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og fólk í persónukjöri, af hverju aðrir ættu að kjósa það. Arna Lára Jónsdóttir er efsta kona á lista Í-listans í Ísafjarðarbæ og hennar svar er á þessa leið:

„Reynsla og árangur ættu að vera helstu ástæðurnar fyrir því að íbúar Ísafjarðarbæjar ættu að kjósa mig og aðra á Í-listanum, að ógleymdum Gísla Halldóri bæjarstjóra. Í þau tólf ár sem ég hef starfað sem bæjarfulltrúi hef fengið að að kynnast öllum byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar mjög vel og hef lagt mig fram um setja mig inn í öll mál. Það er dýrmæt reynsla sem ég tek með mér inn næsta kjörtímabil.

Algjör viðsnúningur hefur verið í bænum eftir að Í-listinn tók við stjórn bæjarins fyrir fjórum árum. Við erum gríðarlega sátt við þann árangur sem við höfum náð. Við höfum lagt mikla áherslu á að bæta umhverfi og fegra ásýnd bæjarins svo við getum verið stolt af honum. Íbúum er að fjölga og við þurfum að halda áfram að byggja upp. Fjármál bæjarins eru föstum skorðum og skuldaviðmiðið hefur farið lækkandi allt kjörtímabilið. Stór uppbyggingarverkefni eru í farvatninu sem við viljum fylgja eftir og klára, má þarf helst nefna byggingu fjölbýlisbýlishússins að Sindragötu 4a, stækkun Eyrarskjóls, knattspyrnuhús, bygging líkamsræktaraðstöðu á Torfnesi og lenging Sundabakka. En það síðastnefnda mun gjörbylta allri aðstöðu hafnarinnar og færa hafsæknum fyrirtækjum í sveitarfélaginu gríðarleg tækifæri.

Við ætlum að halda áfram að bæta lífsgæði bæjarbúa því það skilar sér í farsælli framtíð. Aukin þjónusta við íbúa og uppbygging í sveitarfélaginu er þar grundvallaratriði. Þess vegna er það gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir bæjarbúa að Í-listinn fái góða kosningu og fái að fylgja eftir þeim stóru verkefnum sem framundan eru.“
.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com

DEILA