Saman getum við náð stórbrotnum árangri á næsta kjörtímabili – EF íbúar allir og þorpin öll fá að njóta sín og blómstra

Gísli Halldór Halldórsson.

BB fór á stúfana og spurði efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og bæjarstjóraefni, af hverju fólk ætti að kjósa það. Gísli Halldór Halldórsson er bæjarstjóraefni Í-listans í Ísafjarðarbæ og hans svar er á þessa leið:

„Ég hef verið bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar síðustu fjögur ár og vel hefur gengið. Án Í-listans í bæjarstjórn hefði ég ekki getað leyst starf bæjarstjóra eins vel af hendi og raun ber vitni. Án starfsfólksins, sem vill gera betur, hefði ég litlu áorkað. Ekkert kjörtímabil hefur gengið betur frá því sveitarfélagið sameinaðist árið 1996. Í fyrsta sinn frá sameiningu fjölgar íbúum. Afgangur af bæjarsjóði er sá mesti frá aldamótum og þar með eykst svigrúm til að fjárfesta og framkvæma. Tekjur bæjarsjóðs hafa aukist verulega og getan til að takast á við verkefni í viðhaldi og þjónustu þar með líka. Þrátt fyrir að viðhald og framkvæmdir hafi verið miklar, eins og fólk hefur tekið eftir og sést á tímalínu Í-listans, þá hefur skuldahlutfall lækkað úr 135% í 114%. Agaðri og skipulagðari fjárhagsáætlunarvinna en áður hefur þekkst, ásamt skýrri sýn á hvað er mikilvægt, er ástæða þess að sveitarfélagið blómstrar og fjármál eru í öruggum farvegi.

Hjá Ísafjarðarbæ starfa, líkt og í upphafi kjörtímabils, um 400 manns í nærri 300 stöðugildum og er launakostnaður um 2,5 milljarðar. Sem bæjarstjóri hef ég því lagt höfuðáherslu á stjórnun og starfsmannamál. Mitt markmið er að auðvelda starfsfólki að ná árangri, auka starfsánægju og létta störf fólks – þannig að hver og einn geti skilað sínu besta með gleði og ánægju. Þannig getur starfsfólk betur auðveldað íbúum tilveruna og veitt góða þjónustu. Starfsfólk Ísafjarðarbæjar hefur nú skilgreint sér hlutverk, „Við þjónum með gleði til gagns,“ og hefur náð ótrúlegum árangri á fjölmörgum sviðum. Skipulag og áætlanir um viðhald á umhverfi og eignum Ísafjarðarbæjar er betra en nokkru sinni. Áhaldahús hefur verið eflt og búnaður bættur. Árangur starfsfólks á velferðarsviði hefur skilað mörgum tugum milljóna í kostnaðarlækkun – án þess að draga nokkuð úr þjónustu.
Skólaþróun í öllum grunnskólum og leikskólum er lífleg og árangursrík – þó álag sé heldur mikið. Grunnskólinn á Ísafirði því orðinn framar næstum öllum skólum landsins í gæðum skólastarfs. Enn er hægt að gera miklu betur í að auðvelda starfsfólki og íbúum að ná árangri, sér í lagi með því að einfalda boðleiðir og eftirfylgni með erindum íbúa. Fjögur ár eru ekki nógu langur tími til að gera allt sem þarf. Saman getum við náð stórbrotnum árangri á næsta kjörtímabili – EF íbúar allir og þorpin öll fá að njóta sín og blómstra. Því bið ég kjósendur að veita mér endurráðningu bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar með því að setja X við Í-listann, lista íbúanna, á kjördag.“

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA