Ráðstefna um íslenska þjóðfélagið

Helgina 10. – 11. maí næstkomandi verður tólfta ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið haldin í Háskólanum á Bifröst. Fræðimenn frá öllum greinum hug- og félagsvísinda koma þar saman til að kynna rannsóknir sínar og verkefni en einnig og ekki síður bera saman bækur við aðra.

Á síðu Háskólans á Bifröst segir: „Framtíð háskólastarfs á landsbyggðinni er yfirskrift ráðstefnunnar og vísar hún til þess að Háskólinn á Bifröst vill á 100 ára afmælisári sínu hvetja fræðimenn til að huga að þýðingu vísinda- og fræðastarfs á landsbyggðinni fyrir þróun byggðar og mannlífs í landinu.“

Á sjöunda tug rannsóknarefna verða kynnt á ráðstefnunni en dagskráin hefst 10. maí kl. 10:30 með setningarávarpi Vilhjálms Egilssonar rektors Háskólans á Bifröst. Meðal efna sem kynnt verða í fyrirlestrum og málstofum eru til dæmis fyrirlestrarnir: Öryggisvitund ungmenna í vinnu; Hjúskaparstaða foreldra við fæðingu barns og breytingar á henni á fyrstu æviárum; Sínum augum lítur hver á silfrið; Íbúar og mikilvægi búsetuskilyrða; Áhrif potta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins á byggðafestu um land allt; Hverjir eru velkomnir á Íslandi? Viðhorf til innflytjenda 2004-2016. Einnig munu Strandamennirnir Esther Ösp Valdimarsdóttir og Eiríkur Valdimarsson flytja fyrirlestra úr rannsóknarverkefninu Sumar í sveit.

Fjöldi annarra erinda verða flutt á ráðstefnunni sem er öllum opin og dagskránna má nálgast hérna.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA