Öruggur sigur Hreppslistans í Súðavík

Súðavík. Mynd Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Hreppslistinn vann öruggan sigur í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðna helgi, með þrjá menn kjörna og 61,11% atkvæða. Víkurlistinn fékk tvo menn kjörna með 38,89% atkvæða.

Rétt áður en framlengdur frestur til að skila inn framboðslistum rann út, kom fram nýr listi, Víkurlistinn. Áður hafði aðeins einn listi gefið sig fram, Hreppslistinn, sem situr í sveitarstjórn. Víkurlistinn, með Elsu G. Borgarsdóttur í broddi fylkingar, hlaut ágæta kosningu þó ekki hafi þau náð að fella meirihlutann. Í sveitstjórn sátu áður Steinn Ingi Kjartansson, oddviti, Guðbjörg Bergmundsdóttir, varaoddviti, Halldóra Pétursdóttir, Valgeir Scott og Pétur G. Markan, sveitarstjóri.

Fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018 voru 128 á kjörskrá og þar af voru 109 atkvæði talin. Kjörsókn var því 85,16%. Kjörnir menn á lista eru Steinn Ingi Kjartansson frá Hreppslistanum, með 66 atkvæði, Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir af Víkurlistanum með 42 atkvæði, Guðbjörg Bergmundsdóttir, Hreppslistanum, með 33 atkvæði, Samúel Kristjánsson, Hreppslistanum, með 22 atkvæði og svo Karl Guðmundur Kjartansson frá Víkurlista með 21 atkvæði.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA