Listamannaspjall í Safnahúsinu

Það er alltaf eitthvað um að vera í tengslum við ArtsIceland á Ísafirði. Núna dvelja þar tvær bandarískar systur sem eru ættaðar frá Vestfjörðum, en langafi þeirra og langamma voru gullsmiðurinn Sumarliði Sumarliðason og Helga Kristjánsdóttir. Systurnar, þær Jennifer Shaw og Katherine Fiveash dvelja í vinnustofum ArtsIceland við ritstörf. Systurnar ætla að koma í Safnahúsið á Ísafirði 1. júní og spjalla við gesti um verk sín og vinnu.

Í viðburðalýsingunni segir: „Jennifer Shaw er listsagnfræðingur við Sonoma State háskóla í Kaliforníu. Er hún dvelur við gestavinnustofur ArtsIceland er hún að skrifa og vinna heimildavinnu við fyrsta skáldverk sitt, sem fjallar um líf langömmu hennar, Helgu Kristjánsdóttur og langafa hennar, gullsmiðsins Sumarliða Sumarliðasonar. Þau bjuggu á Ísafirði og í nágrenni hans, þar til árið 1884 er þau fluttust vestur um haf til Bandaríkjanna. Í brennidepli sögunnar eru áskoranirnar sem Helga stóð frammi fyrir og sett er í stærra samhengi eða hvernig landfræðileg staða, stétt og kynferði hefur áhrif á líf kvenna. Í sögunni eru einnig skoðuð þau tækifæri og hindranir sem voru hluti af lífsreynslu Vesturfaranna.“

„Katherine Fiveash er náttúrufræðingur, kennari og rithöfundur, sem ástundar sjálfsþurftarbúskap. Hún skiptir árinu upp á milli dvalar í Flórens, Massachusetts og á afskekktu eyjunni Haut í Maine. Hún er höfundur verðlaunabókarinnar Island Naturalist, sem er safn greina um náttúrulífssögu strandlengju Maine og ljóðabókarinnar Earthbound.“

Listamannaspjallið hefst klukkan 17 og fer fram á ensku. Heitt á könnunni og allir velkomnir.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA