Fyrir fólkið í Bolungarvík – Stefna Sjálfstæðismanna og óháðra birt

Sjálfstæðismenn og óháðir í Bolungarvík hafa birt stefnuskrá.

Stefna Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík hefur verið birt en hana má nálgast í heild sinni hér. Í stefnuskránni kemur fram að Sjálfstæðismenn og óháðir hafi náð góðum árangri í rekstri bæjarfélagsins og að fjárhagsleg staða bæjarins hafi aldrei verið jafn sterk. Eftirtalin áhersluatriði koma fram í stefnuskránni:

 

Fræðslu- og uppeldismál

Sjálfstæðismenn og óháðir vilja meðal annars tryggja að börn eldri en 10 mánaða komist á leikskóla, bjóða upp á fríar skólamáltíðir og bæta tungumálakennslu tvítyngdra barna.

Umhverfis- og skipulagsmál

Listinn vill meðal annars að sveitarfélagið verði leiðandi í umhverfisátaki og fegrun bæjarins og skipuleggja og auglýsa lóðir undir nýbyggingu.

Íþrótta- og æskulýðsmál

Sjálfstæðismenn og óháðir leggja meðal annars áherslu á að frístundakortið hækki um 100%, þ.e. verði 40 þúsund krónur. Einnig er lögð áhersla á að frístundarútan verði áfram gjaldfrjáls og að hesthúsabyggð fái framtíðarstaðsetningu.

Samgöngu- og hafnarmál

Áherslumál hvað varðar samgöngu- og hafnarmál eru meðal annars að strætóferðum á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar verði komið á. Einnig ætlar listinn að þrýsta á um vegbætur að Bolafjalli og Skálavíkur, sem og að Bolungarvíkurhöfn verði áfram framúrskarandi þjónustuhöfn.

Ferða- og menningarmál

Sjálfstæðismenn og óháðir vilja fjölga áningarstöðum og markaðssetja Bolungarvík fyrir ferðamenn. Meðal áhersluatriða er að koma upp útsýnispalli á Bolafjalli og byggja fjöruna upp sem áfangastað fyrir brimbrettafólk.

Atvinnumál

Hvað atvinnumál varðar vilja Sjálfstæðismenn og óháðir stuðla að ljósleiðaravæðingu bæjarins, berjast fyrir fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og styðja við nýsköpun í atvinnulífinu.

Velferðarmál

Sjálfstæðismenn og óháðir vilja meðal annars bjóða upp á frístundakort fyrir eldri borgara og öryrkja, sem og auka fjölbreytni í tómstundaaðstöðu fyrir aldraða. Einnig er efling íslenskukennslu fyrir erlenda íbúa áhersluatriði.

Fjármál og stjórnsýsla

Hvað varðar fjármál og stjórnsýslu vilja Sjálfstæðismenn og óháðir viðhalda góðri fjárhagsstöðu bæjarins, marka lýðræðisstefnu og auka íbúalýðræði. Einnig er áhersluatriði að lækka skuldahlutfall sveitarfélagsins.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA