Brugðist við nýrri framtíð – stefnuskrá Í-listans

Í-listinn stefnir á áframhaldandi uppbyggingu í sveitarfélaginu en stefnuskrá framboðsins verður kunngjörð á næstu dögum. Kjörtímabilið sem er að líða hefur verið Ísafjarðarbæ og samfélaginu hagfellt. Íbúum er farið að fjölga í fyrsta sinn frá því fyrir aldamót og rauður þráður í stefnuskrá Í-listans er að stækkandi sveitarfélag verður að vera undirbúið fyrir nýja tíma, hvort sem það er í skólamálum, velferðarmálum, skipulagsmálum eða húsnæðismálum svo fátt eitt sé tínt til.

Brýnt að fjölga leikskólaplássum

Í skólamálum ætlar Í-listinn að fylgja eftir fjárfestingaráætlun Ísafjarðarbæjar og stækka leikskólann Eyrarskjól á næsta ári. Vöntun er á leikskólaplássum og stækkun skólans er afar brýn. Í framhaldinu þarf að huga að stækkun og breytingum á Sólborg til að fjölga plássum. Afar brýnt er að börn fái leikskólapláss við 12 mánaða aldur og Í-listinn mun halda áfram að lækka leikskólaaldurinn og fjölgun plássa er liður í því.

Knattspyrnuhús rís í haust

Stærsta einstaka verkefni í íþróttamálum er bygging knattspyrnuhúss á Torfnesi. Undirbúningur framkvæmda stendur yfir og hefjast framkvæmdir í haust. Einnig er stefnt að lagningu gervigrass á Torfnesi í lok kjörtímabilsins. Þá er bygging reiðhallar í Engidal í undirbúningi og framkvæmdir hefjast innan skamms. Í-listinn er mjög stoltur að hafa siglt erfiðu deilumáli bæjarins við hestamenn í höfn.

Eftir að hafa í vetur tryggt framtíð rekstrar líkamsræktarstöðvar í sveitarfélaginu ætlar Í-listinn að finna líkamsræktarstöðinni nýtt og nútímalegt húsnæði.

Bærinn beiti sér á íbúðamarkaði

Vöntun er á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og Í-listinn ætlar að ljúka byggingu fjölbýlishúss við Sindragötu sem hefur verið boðið út. Í framhaldinu þarf að fylgja húsinu eftir með byggingu annars fjölbýlishúss við Sindragötu til að mæta íbúafjölgun. Í-listinn ætlar að leita leiða til að útbúa fjölbýlishús í Ísafjarðarbæ þannig að það henti eldri borgurum, t.d. með lyftum og bættu aðgengi.

Ný framtíð í nýju aðalskipulagi

Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar verður tekið upp á kjörtímabilinu. Nýtt skipulag mun ekki mótast af skipulögðu undanhaldi sem því miður hefur borið á. Taka þarf tillit til nýrrar framtíðar með fjölgun íbúa og nýrrar atvinnustarfsemi, fyrst og fremst fiskeldis. Tíu þúsund tonna laxeldi í Dýrafirði er innan seilingar og með Dýrafjarðargöngum og nýjum vegi um Dynjandisheiði er Þingeyri og Dýrafjörður miðsvæðis á Vestfjörðum. Þennan nýja veruleika þarf að endurspegla í nýju aðalskipulagi og gera ráð fyrir rými fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

Íbúalýðræði er í stöðugri þróun

Íbúalýðræði er hjartans mál Í-listans og meirihlutinn hefur fikrað sig áfram á þeirri braut. Má þar nefna stofnun hverfisráða og íbúakönnun vegna málefna Sundhallarinnar. Betur má ef duga skal og Í-listinn vill efla hlutverk hverfisráðanna og þróa starf þeirra. Til dæmis með því að gera hverfisráðin sýnileg á vefsíðu Ísafjarðarbæjar og að ráðin get fylgt eftir erindum sínum og séð hvar þau eru stödd í stjórnkerfinu. Hugmyndir og áherslur hverfisráða verða lagðar til grundvallar við uppbyggingu stíga og útivistarsvæða og í öðrum framkvæmdum sveitarfélagsins.

Atvinnulífið nærist á blómlegu samfélagi – og öfugt

Ef fyrirtæki vilja fjölga störfum þarf að tryggja að Ísafjarðarbærr sé álitlegur búsetukostur. Þar skipta mestu máli gæði í þjónustu grunnskóla og leikskóla, en einnig þarf að huga að fjölbreyttum og vönduðum valkostum í útivist, íþróttum og menningu. Í-listinn mun áfram styðja við og þróa

Blábankann á Þingeyri, en til hans er horft í byggðaþróun á Íslandi. Frá árinu 2016 hefur Í-listinn haft forgöngu um að undirbúa Ísafjarðarhöfn undir fiskeldi framtíðarinnar, með því að vinna að framgangi Sundabakka á samgönguáætlun og með skipulagi iðnaðarlóða í samstarfi við eldisfyrirtæki og tengda aðila.

Fiskeldi í Ísafjarðarbæ er orðið að veruleika. Nú þegar liggur fyrir að 10.000 tonna eldi verður í Dýrafirði auk þess sem umtalsverð aukning á eldi er fyrirhuguð í Arnarfirði og eldi á regnbogasilungi í Skutulsfirði. Í-listinn mun áfram berjast fyrir því að stjórnvöld og stofnanir ríkisins sýni sanngirni og raunsæi og opni Ísafjarðardjúp fyrir laxeldi á næstu misserum.

Í stöðugri sókn í umhverfismálum

Í-listinn hefur lagt áherslu á að fegra umhverfið í sveitarfélaginu og mun halda því áfram. Götur, gangstéttir, græn svæði og aðrir innviðir þarfnast frekari endurnýjunar og viðhalds. Viðhald á eignum og innviðum bæjarins var lengi vanrækt og þrátt fyrir að Í-listinn hafi tekið til hendinni er margt óunnið enn. Viðhaldsleysi grefur undan framtíðinni. Í-listinn mun halda áfram að greiða „viðhaldsskuld“ fyrri ára og gera Ísafjarðarbæ að fyrirmyndarbæ.

Í-listinn ætlar að halda áfram að fjölga göngustígum í öllum byggðarkjörnum í sveitarfélaginu og gera Ísafjarðarbæ að útivistarparadís fyrir alla.

Stígakerfi og útivistarsvæði verða tengd saman með fjölbreyttum notkunar möguleikum t.d fyrir hjólreiðar, hlaup, erfiða göngu og létta göngu.

Möguleikar íbúa til að fara sinna ferða gangandi og hjólandi, vetur sem sumar með snjómokstri og hálkuvörnum verða auknir.

Við ætlum að bæta aðstöðu á grænum almenningssvæðum í öllum byggðakjörnum í samráði við íbúa. Sérstök áhersla verður lögð á snjóflóðavarnargarðinn á Flateyri.

Uppbygging og endurbætur gatna, gangstétt og göngustíga heldur áfram. Hellulögn verður viðhöfð eftir því sem kostur er.

Ábyrg fjármálastjórnun

Í-listinn mun áfram stýra fjármálum Ísafjarðarbæjar með ábyrgum hætti. Í því felst að skuldaviðmið sveitarfélagsins haldi áfram að lækka. Engu að síður verður haldið áfram uppbyggingu í samfélaginu og varið til þess nauðsynlegum fjármunum. Sveitarfélag sem er í vexti og hefur trú á eigin framtíð verður að fjárfesta í innviðum og búa í haginn fyrir framtíðina.

Vinna við fjárhagsáætlanagerð hefur tekið stórstígum framförum á kjörtímabilinu með bættu skipulagi og aukinni þátttöku starfsfólks. Þetta hefur skilað sér í traustari fjárhagsáætlunum og auknu svigrúmi til að mæta áföllum. Haldið verður áfram á þessari braut.

Bókhald sveitarfélagsins var opnað fyrir almenningi á síðasta ári. Leitað verður leiða til að kalla eftir ábendingum frá íbúum um úrbætur á rekstri Ísafjarðarbæjar.

Velferð fyrir unga sem aldna

Velferðarmál eru fólkinu sem stendur að Í-listanum hugleikin. Geðheilbrigðismál hafa verið í brennidepli í samfélaginu síðustu misseri. Í-listinn vill huga að bættri geðheilsu, andlegri vellíðan og geðrækt – ekki síst meðal ungs fólks – bæði með því að bæta þá þjónustu sem fyrir er og að þrýsta á heilbrigðisyfirvöld um átak í þessum málum.

Mikilvægt er að heimaþjónusta eldri borgara verði efld og hún betur tengd heimahjúkrun, þannig að eldri borgara eigi betri kost á heildstæðri þjónustu. Í-listinn vill brúa kynslóðabilið og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda á þriðja æviskeiðinu með aðstöðu fyrir eldri borgara. Liður í því er að skipa íþrótta- og tómstundafulltrúa fyrir eldri borgara.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA