Norsk kvikmyndahátíð í Ísafjarðarbíó

Norska sendiráðið og Ísafjarðarbíó bjóða í bíó á morgun, 18. apríl.

Það er fátt betra en fjölbreytni í lífið og fjölbreytni í bíósýningum. Oftar en ekki eru amerískar myndir mest sýndar í íslensku kvikmyndahúsum, en norska sendiráðið ætlar að leggja sína hönd á plóg við að auka fjölbreytnina og kemur færandi hendi í Ísafjarðarbíó 10. apríl. Þá mætir sendiráðið með þrjár kvikmyndir, sem eru allar með enskum texta en norsku tali auðvitað.

Fyrsta myndin er sýnd kl 14:00 og eins og segir á Facebook síðu Ísafjarðarbíós þá er það myndin:

„OPTIMISTENE“ („Bjartsýnisfólk“)
Ekkert aldurstakmark.
Þrátt fyrir vikulegar æfingar hefur blakliðið Bjartsýniskonur, sem saman stendur af konum á aldrinum 66-98 ára, ekki spilað einn einasta keppnisleik í 30 ár. Þær langar að keppa, en við hvern? Orðrómur fer af stað og hópur af myndarlegum sænskum körlum, hinu megin við landamærin, ákveður að bjóða sig fram.
Allt þetta skilar ógleymanlegri ferð til Svíðþjóðar og stórkostlegum landsleik í blaki. Kannski geta nokkrir blakspilarar sýnt okkur að æskudýrkun nútímans er ekki á rökum reist og að við ættum heldur ekki að dýrka þá sem eldri eru.

Næsta mynd er sýnd kl 16:00 og heitir Opersjon Arktis eða Norður-Íshafsgerðin. Aldurstakmark á hana er 9 ára. Lýsing á myndinni er svohljóðandi:

Vetrarstormar geisa á Svalbarða og hafísinn umlykur Hálftunglseyjuna. Á þessum auða stað lengst í norðri hittum við þrjú börn. Julia sem er 13 ára og tvö systkini hennar, tvíburana Ida og Simen. Þau eru alein. Börnin hafa lent á Hálftunglseyju eftir örlagaríkan misskilning. Enginn veit að þau eru þar. Þau vita ekki einu sinni sjálf hvar þau eru. Á meðan leita foreldrar og lögregla að börnunum í mikilli örvæntingu á meginlandinu, án þess að vita að börnin dvelja lengst norður í höfum. Þetta er æsispennandi saga frá upphafi til enda.

Klukkan 19:30 býður norska sendiráðið upp á drykki og norskar vörur í boði Stabburet og Sigdal. Síðasta myndin hefst svo kl 20:00 en það er myndin Kraftidioten eða Karlfíflið. Myndin fjallar um hinn sænska Nils sem vinnur við snjómokstur. Þegar sonur hans er drepinn grípur hefndarþorstinn Nils og hann vill gjalda auga fyrir auga og son fyrir son. En það er ekki einfalt að stunda blóðhefndir í velferðarþjóðfélagi. Nils er hins vegar vopnaður þungum vinnuvélum og heppni sem hann þarf sannarlega á að halda í glímu sinni við afbrotamenn og serbnesku mafíuna.

Aðgangur er ókeypis að öllum myndunum og Ísafjarðarbíó og norska sendiráðið bjóða alla velkomna.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA