„Húmoristar hvergi fleiri miðað við höfðatölu“

Húmorsþing á Hólmavík.

Laugardaginn 14. apríl verður haldið svokallað Húmorsþing á Hólmavík. Það eru 10 ár síðan fyrsta Húmorsþingið var haldið en það eru Háskóli Íslands og Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem standa fyrir þinginu. Viðburðurinn er opinn öllum og margt spennandi á dagskránni, sem tengist húmor á einn eða annan hátt. Um daginn verða fróðleg og skemmtileg erindi þjóðfræðinga sem fjalla meðal annars um uppistand, flakkara og kynlíf bænda. Um kvöldið verður svo barsvar á Café Riis, Villi Vandræðaskáld stígur á stokk, fyndnasti Háskólanemi Íslands og meira uppistand.

Kristinn Schram prófessor í þjóðfræði er einn skipuleggjanda þingsins og heyrði blaðamaður bb.is í honum til að athuga hvernig undirbúningurinn gengi. Aðspurður svaraði hann: „Hörmulega. Það gengur allt á afturfótunum, engir peningar til og öll tæki ónýt. Við erum að hugsa um að hætta við,“ en var svo fljótur að bæta við: „Nei nú er ég að grínast. Það er rífandi stemning í undirbúningnum,“ og það er greinilegt að það er stutt í húmorinn hjá Kristni. Hann segir helsta markmið þingsins vera að fræðast og skemmta sér og þátttakendur séu góð blanda heimamanna og utanaðkomandi gesta.

En hvernig tengist húmor þjóðfræði? „Þjóðfræði snýst mjög mikið um hversdaginn og alþýðumenningu, en húmor er alltumlykjandi, bæði okkar hversdagslegustu hefðir og hátíðir. Hvort sem það er grín, háð, fyndnar sögur eða skrýtnir siðir þá er húmor stór þáttur í daglegu lífi okkar og þarfnast skoðunar sem slíkur. Fræðimenn og háskólanemar um allan heim rannsaka hinar ýmsu birtingarmyndir húmors, en það hefur verið kennt við Háskóla Íslands í áratug“ segir Kristinn.

Kristinn segir ástæðuna fyrir því að ákveðið hafi verið að halda fyrsta Húmorsþingið á Hólmavík fyrir 10 árum einfalda: „þá ákváðum við að gera Hólmavík að Mekka húmorsins, Ekki aðeins er hún í þægilegri fjarlægð frá öllum helstu stöðum á landinu heldur uppfull af húmoristum og húmorfræðingum. Þeir eru hvergi fleiri miðað við höfðatölu,“ segir Kristinn glettinn að lokum.

Dagrún Ósk

 

 

DEILA