„Ég sé ekki fyrir mér að nokkur íbúi í Árneshreppi muni vinna þarna“

Valgeir Benediktsson.

Valgeir Benediktsson býr á Árnesi í Árneshreppi og hefur gert það megnið af sínu lífi. Hann bjó þó um tólf ára skeið í Reykjavík en flutti svo aftur norður til að taka við sauðfjárbúi foreldra sinna með bróður sínum. Hugur hans stóð aldrei einvörðungu til búskapar og Valgeiri þóttu kindurnar einar og sér ekki gefa mikið til samfélagsins í Árneshreppi. Þess vegna réðst hann í að byggja hús úr rekaviði árið 1997, með hjálp fjölskyldu og vina og opnaði þar Minja- og handverkshúsið Kört.

„Ég var oft að tálga eitthvað sem barn og hef alltaf haft mikinn áhuga á gömlum hlutum og handverki,“ segir Valgeir þegar BB hringdi í hann norður í Árneshrepp. „Ég bjó hérna með sauðfé, en svo fór mig að langa að gera eitthvað meira og gera eitthvað fyrir samfélagið annað en að vera með þessar kindur svo ég byggði hérna hús. Þegar ég bjó í Reykjavík þá lærði ég tréskurð og rennismíði og var farinn að framleiða svolítið af minjagripum. Mig langaði að koma þessu á framfæri og tengja þetta áhugamál gömlum gripum svo ég byggði hérna hús úr rekaviði. Þar er nú Minja- og handverkshúsið Kört þar sem við rekum menningar- og sögutengda ferðaþjónustu. Ég sel líka handverk fyrir fólk úr sveitinni því slíkan stað vantaði hérna. Og húsið er fullt af safngripum héðan úr héraði.“

Valgeir hefur nánast hætt búskap og einbeitir sér mest að Kört, enda koma um 3-4000 manns í Kört á hverju sumri. „Sem telst nú nokkuð gott miðað við hvar við erum stödd á landakortinu,“ segir Valgeir. Valgeir er algjörlega andvígur svokallaðari Hvalárvirkjun. Hann segist hafa getað hugsað um virkjanaáform og velt þeim fyrir sér þegar stóð til að virkja aðeins eina á, þá Hvalá, en svo hafi áformin stækkað og nú standi í raun til að flytja nánast allt vatn úr Eyvindarfjarðará og vatnasviði hennar, svo það renni niður í Ófeigsfjörð. Svo Eyvindarfjarðaráin, með öllum sínum fallegu fossum, hún þornar nánast upp.

„Það er rangnefni að kalla þetta Hvalárvirkjun og þetta er orðið hálfgert skrímsli að mínu mati. Og þetta eru alltof mikil umhverfisspjöll svo hægt sé að sætta sig við þau. Það verður þarna til miðlunarlón sem verður 13 kílómetrar að flatarmáli. Og það þarf að grafa 6 km af göngum til að leiða vatnið að aflstöðinni og svo ótal skurði og rennur til að koma þessu á réttan stað. Þá þarf að reisa stíflugarða sem verða 33 metrar á hæð þar sem þeir verða hæstir svo þetta verður ekkert smáræðis mannvirki,“ segir Valgeir.

Umhverfisspjöllin eru mikil á svæðið sem fyrirhugað er að fari undir virkjanaframkvæmdir. Valgeir sagði einnig í samtali við BB að vegirnir sem sprengt yrði fyrir upp úr ósum Hvalár yrðu 25 kílómetrar að lengd og gerðir fyrir þungavinnuvélar. Heildar ferkílómetrafjöldinn sem yrði fyrir áhrifum vegna virkjanaframkvæmdanna væru 265 ferkílómetrar og til viðmiðunar segir Valgeir að Reykjavík nái yfir 272 ferkílómetra. „Þetta eru 37 prósent af öllu landssvæðinu sem tilheyrir Árneshreppi sem færi undir áhrifasvæði virkjunarinnar og þar af um 200 ferkílómetrar sem eru óbyggð víðátta. Það er mest í umræðunni núna að reyna að vernda þessi víðerni. Og ég velti fyrir mér hvernig umhverfisvottun Vestfjarða fer út úr þessu? Hvort það muni standast að Vestfirðir geti verið umhverfisvottaðir í heild ef úr þessu verður? Ef Árneshreppur á að teljast með Vestfjörðum, manni finnst stundum að hann fylgi ekki með í umræðunni,“ segir Valgeir og hljómar örlítið dapur.

Hann segist þó fyrst og fremst vera á móti virkjanaframkvæmdunum vegna þess að umhverfisspjöllin sem af hljótast séu óafturkræf. „Þó virkjunin standi kannski í 50 ár þá standa umhverfisspjöllin um ókomna tíð.“ Valgeir segist ekki geta séð að Hvalárvirkjun verði lyftistöng fyrir Árneshrepp. Hreppurinn sjálfur fái ekkert út úr framkvæmdunum nema fasteignagjöld og Valgeir telur mjög langsótt að halda því að fram að þau sem muni starfa fyrir verktakana sem koma að, muni skrá lögheimili sín í Árneshreppi. „Og þegar þetta er komið á framkvæmdastig þá ræður Vesturverk náttúrulega ekki ferðinni, heldur verktakarnir og þá er við þá að eiga. Þeir munu ekki versla hérna í Kaupfélaginu, það er meira að segja viðurkennt í þessari skýrslu sem Vesturverk keypti frá Háskólanum á Akureyri. Þeir munu ekki kaupa héðan og þetta skapar enga atvinnu. Hvorki á framkvæmdatímanum né eftir að þeim lýkur því virkjunin á að vera mannlaus. Ég sé ekki fyrir mér að nokkur íbúi í Árneshreppi muni vinna þarna.“

Það vottar fyrir depurð í máli Valgeirs þegar spjallið berst að framtíð hreppsins sem hann segir að standi tæpt. Hann minnist á að ef af framkvæmdunum verður, þá yrði ekki byrjað fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár og þá verði líklega enn færri íbúar eftir, ef nokkur. Valgeir segir líka dapurlegt að fyrirhuguð Hvalárvirkjun muni hvorki bæta samgöngur né innviði í hreppnum á nokkurn hátt. Vesturverk hafi sent frá sér lista með loforðum til íbúa Árneshrepps en hann sé fylltur með verkum sem aðrir eiga að framkvæma og verkum sem eru hreinlega ekki á verksviði Vesturverks.

En hvað með þjóðgarðsumræðuna? Hvernig hugnast hún handverksmanninum í Árnesi? „Þjóðgarður hefur líka verið í umræðunni en sú umræða er mjög skammt á veg komin,“ svarar Valgeir. „Sveitarstjórnin fékk tilboð um að skoðaðir yrðu kostir bæði virkjunar og þjóðgarðs en meirihluti hreppsnefndar hafnaði því. En það þyrftu að liggja allavega tveir kostir frammi. Mér finnst mjög dapurt að það hafi ekki verið hægt að koma umræðunni á það stig heldur einblína bara á þetta eina,“ segir Valgeir og bætir við að það sem fyrst og fremst vanti í Árneshrepp sé fleira fólk og bættar samgöngur. „Og hvorugt kemur með þessari virkjun.“

„Tími svona stórra og óhagkvæmna og náttúruspillandi virkjana sem ætlaðar eru fyrir stóriðju er  liðinn. Gróðahagsmunir HS orku eiga ekki að ráða för þegar teknar eru ákvarðanir sem valda svona gríðarlegum og óafturkræfum náttúruspjöllum. Það er mín skoðun að sjálfbærni og náttúruvernd séu lykilhugtök framtíðarinnar. Svo hægt sé að byggja upp atvinnulíf og mannlíf í sátt við umhverfið án þess að gengið sé á hagsmuni komandi kynslóða,“ segir Valgeir að lokum.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA