Það er skemmtilegt að mynda skegg

Ljósmyndasýningin Skeggjar stendur yfir í Listasafni Ísafjarðar um páskana.

Ljósmyndasýningin Skeggjar verður opnuð í Listasafni Ísafjarðar þann 28. mars næstkomandi. Þar mun Ágúst G. Atlason, bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar, sýna ljósmyndir af 61 skeggjuðum mönnum.

Ágúst segir að ævintýrið hafi hafist þegar hann keppti í liðakeppni í ljósmyndun, þar sem viðfangsefnið var portrait. „Mér datt í hug að mynda Arngrím Kristinson í Bolungarvík, en sú myndataka fór fram í fjárhúsunum hans. Myndin endaði á að vinna keppnina og ég fór að hugsa um að gera seríu.“ Í kjölfarið hófst Ágúst handa við þá vinnu og varð Óli bróðir hans, fyrsta viðfangsefnið. „Sú mynd var tekin í stúdíói, en allar myndirnar eru teknar í stúdíói, fyrir utan myndina af Arngrími.“

Ágúst talar um að verkefnið hafi verið talsvert lengi í gangi, en myndin af Arngrími var tekin árið 2010. „Ég tók næstu mynd ekki fyrr en 2013, þá af Óla bróður og síðan þá hef ég myndað nokkra á ári.“ Ágúst segir að skeggjuðu myndefnin séu nú orðin 61 og að verkefninu sé hvergi nærri lokið þrátt fyrir sýninguna. „Ég stefni á að mynda 100 að minnsta kosti.“

Þegar Ágúst er spurður út í myndefnið, þ.e. af hverju hann taki myndir af skeggjuðum mönnum, segir hann það góða spurningu. „Ég hef gaman að klassískri portrait myndatöku og það er skemmtilegt að mynda skegg, því það hefur sterka karakter skírskotun. Svo passar dramatísk lýsing svo vel við skegg.“ Ágúst brosir þegar hann bætir við að sumir segi reyndar að áhugi hans á þessu myndefni sé tilkomið vegna þess að honum vaxi ekki grön. „Ég er taðskeggingur.“

Mennirnir sem Ágúst hefur myndað fyrir þessa sýningu eru flestir Vestfirðingar, eða hafa að minnsta kosti búið hér á einhverjum tímapunkti. „Við Vestfirðingar höfum eiginlega hirt alla þá sem koma, ég held að það sé Vestfirðingur í öllum þessum mönnum.“

Ágúst bendir á að sýningin Skeggjar verði opin yfir páskana, 28., 29. og 31. mars, en hangi svo uppi að minnsta kosti út apríl. „Ég vil hvetja alla til að koma á opnunina og þiggja léttar veitingar í boði hússins. Mig langar einnig að þakka öllum þeim sem styrktu sýninguna.“ Ágúst talar um að allsstaðar hafi verið tekið vel í beiðni hans, bæði fyrirtæki og fólk. „Það er ómetanlegt að hafa svona bakland og ekki sjálfsagt. Mig langar líka að þakka öllum þeim sem sátu fyrir hjá mér og svo auðvitað fjölskyldunni minni og vinum og sérstaklega Ásgeiri Helga Þrastarsyni og Jónu Símoníu Bjarnardóttur. Ég verð svo að skjóta því að, að það verður leyndur demantur í sýningunni, alveg óslípaður“.

-Margrét Lilja Vilmundardóttir

margretliljavilmundardottir@gmail.com

DEILA