Sameiginleg árshátíð kórafólks

Sunnukórinn, Karlakórinn Ernir og Kvennakór Ísafjarðar ætla að halda sameiginlega árshátíð kórafólks á norðanverðum Vestfjörðum, laugardaginn 7. apríl. Árshátíðin verður haldin í Félagsheimilinu í Bolungarvík, allir eru velkomnir en kórar á svæðinu eru sérstaklega hvattir til að mæta.

Linda Björk Pétursdóttir, meðlimur Sunnukórsins, segir að frá stofnun kórsins árið 1934, hafi verið haldið Sunnukórsball í kringum sólardaginn ár hvert. “Í ár ákvaðum við að sleppa ballinu, en fengum þá hugmynd að hafa samband við formenn Kvennakórs Ísafjarðar og Karlakórsins Ernis og kanna hvort þau væru til í að halda sameiginlega árshátíð. Þau tóku strax vel í þessa hugmynd og ákveðið var að setja saman nefnd til að skipuleggja viðburðinn.”

Linda Björk segir að ákveðið hafi verið að halda veglega árshátíð með mat og dansleik og bjóða öllum kórum nágrennisins. “Það er rík kóramenning á Vestfjörðum, hér eru öflugir og flottir kórar sem syngja á ýmsum mannamótum. Það er gaman að hitta annað kórafólk af svæðinu, sjá hvað hinir eru að gera og mynda tengsl.” Linda Björk segir að kórarnir þrír sem standa að árshátíðinni muni syngja sameiginlega á ballinu og hvetur aðra kóra til að syngja líka. “Við vonum að þetta verði árviss viðburður í bæjarlífinu.”

Linda Björk segist spennt fyrir kvöldinu, „það verður smáréttahlaðborð, skemmtiatriði, happdrætti og loks ball með Siggu Beinteins og Grétari Örvars.“

 

-Margrét Lilja Vilmundardóttir

margretliljavilmundardottir@gmail.com

DEILA