Matgæðingar sem þvælast hvort fyrir öðru í eldhúsinu

Við erum bæði miklir matgæðingar og að okkar mati er góður matur stór hluti af lífsgæðum. Við höfum mjög gaman af því að fá fólk í mat og elda eitthvað gott. Um helgar gerum við oftast vel við okkur, þvælumst fyrir hvoru öðru í eldhúsinu og eldum góða steik með ljúffengri sósu og meðlæti.  Palli er betri „dash“ kokkur, en ég þarf svolítið að fara eftir bókinni.  Okkur langar að deila nokkrum vel völdum uppskriftum með lesendum. Þessi matur er uppskrift að góðu kvöldi.

Okkur langar að skora á góðvini okkar, Gerði Björk Sveinsdóttur og Davíð Bredesen að taka við keflinu og deila með okkur ljúffengum réttum. Við vitum að þau hafa jafn gaman af góðum mat og við.

Forréttur

Fylltur humar

Fylling

40% rjómaostur

60% smjör

Hvítlaukur

Steinselja

Salt og pipar

Brauðrasp

Parmesan

Edik/sítróna/hvítvín

Hunang

Öllu blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Sett ofan á humarinn og grillað í ofni í u.þ.b 3-4 mínútur.

Humarinn borinn fram með snittubrauði og hvítlaukssósu.

Aðalréttur

Hægelduð nautasteik (fyrir 4)

1kg nautalund

Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Smjör

Hitið ofninn í 70°C. Piprið nautalundina og vefjið sex umferðir af plastfilmu utan um lundina. Bíðið með að salta þar sem það dregur vökvann úr kjötinu. Setjið lundina í eldfast mót og hafið í ofninum í tvær klukkustundir. Takið því næst kjötið úr ofninum og látið standa í 10 mínútur. Því næst er lundin söltuð, smjör hitað á pönnu og kjötið brúnað. Þá er steikin aftur látin standa í 10 mínútur, skorið niður og borið á borð. Mér finnst líka gott að nota kjöthitamæli og tek þá kjötið út í 65-66°C og brúna það svo á öllum hliðum.

Sveppaostasósa

50 gr. íslenskt smjör

Sveppir

Teningur

½ piparostur

½ sveppaostur

½ líter matreiðslurjómi

Smjörið brætt í potti og sveppirnir settir út í. Matreiðslurjóma bætt út í ásamt ostunum. Ég nota alltaf rifjárn á ostana svo þeir séu fljótari að bráðna. Teningnum bætt út í ásamt restinni af rjómanum. Haft á lágum hita og hrært vel í þar til osturinn er alveg bráðnaður.

Borið fram með kartöflum og öðru meðlæti.

Eftirréttur

Súkkulaðikaka

Innihald:

4-5msk smjör

100 gr Síríus súkkulaði

3 egg

3dl sykur

1 ½ dl hveiti

1 tsk salt

1 tsk vanilludropar

Karmella:

4 msk smjör

1 dl púðursykur

2 msk rjómi

1 ½ dl pecanhnetur grófsaxaðar eða heslihnetur

150 gr suðusúkkaðulaði brytjað

Aðferð:

  1. Bræðið súkkulaðið og smjörið í vatnsbaði
  2. Þeytið eggin í þétta froðu, bætið sykrinum út í og hrærið vel
  3. Bætið þurrefnunum út í, síðan brædda súkkulaðinu og vanilludropum
  4. Hellið í ferkantað form (uþb 14 cm í þvermál) eða litla skúffu og bakið við 175 °C í 15 mín.

Karmella:

  1. Hitið smjörið og púðursykurinn að suðu. Sjóðið í 1 mín og hrærið stöðugt á meðan. Takið af hellunni og kælið lítið eitt áður en rjómanum er blandað saman við.
  2. Stráið hnetunum yfir hálfbakaðan botninn, hellið karmellunni yfir og bakið í 15 mín í viðbót.
  3. Stráið súkkulaðinu yfir heita kökuna.

Kakan er borin fram volg með rjóma eða ís.

Gunnþórunn Bender

Páll Heiðar Hauksson

 

DEILA