Leikhúsævintýri í Dýrafirði

Leikdeild Höfrungs á Þingeyri sýnir um þessar mundir eitt vinsælasta barnaleikrit allra tíma, Ronju Ræningjadóttur, eftir Astrid Lindgren. Leikstjórn annast Elfar Logi Hannesson, en hann hefur undarfarin ár sett upp ófáar sýningar með Höfrungi. Það eru ekki mörg lítil pláss sem geta státað af eins blómlegu leiklistarlífi og Þingeyringar.

„Það má hrósa Höfrungi leikdeild fyrir dug og þor, alveg síðan 2009 þegar leikdeildin var stofnuð.“ Segir Elfar Logi og bætir við að leikdeildin hafi verið óhrædd við að takast á við risaverkefni leikhússins eins og Ronja Ræningjadóttir einmitt er. „Þetta er viðamikil sýning á allan hátt. Það taka 16 leikarar þátt, frá 7 til 64 ára og bakvið tjöldin starfa svo 20 manns. Það er því um hálft hundrað sem fer hér á kostum í leikhúsinu.“

Elfar Logi talar um að leikarar og aðstandendur sýningarinnar séu í raun eins og ein stór fjölskylda þar sem gleðin er í aðalhlutverki, en það er einmitt megin tilgangur leikhússins. „Við frumsýndum um liðna helgi og svo verður brjálað að gera næstu tvo daga, því við munum vera með 4 sýningar.“ Elfar Logi bendir á að það sé um að gera að tryggja sér miða í tæka tíð og efla þar með leikhúslífið. „Það er engin spurning að list er besta fjárfestingin.“

Elfar Logi segist hafa verið afar lánsamur að fá að leikstýra öllum leikverkum leikdeildar Höfrungs og talar um þetta hafi verið gjöfult ævintýri. „Fyrsta uppfærslan var á frumsömdum leik Dragedukken. Var þar á ferðinni leikur byggður á sögu Þingeyrar er fjallaði um kaupmanninn Andreas M. Steinbach sem á síðkvöldum dundaði sér við að semja tónlist við norska leikverkið Dragedukken. Leikurinn sló í gegn og næstu tvö árin voru frumfluttir tveir sögulegir dýrfirskir leikir, Eikin ættar minnar, 2010, og Höfrungur á leiksviði, 2011.“

Elvar Logi segir að þarna hafi leikhópurinn tekið stutt kúnstpása en leikurinn svo hafinn að nýju með brumandi krafti með uppsetningu á Línu Langsokk, 2014, sem sló öll met. „Síðustu tvö ár hafa verið sett á svið leikverk eftir annað vinsælt barnaleikritaskáld, Thorbjörn Egner, Kardemommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi. Í ár liggur leiðin aftur til Lindgrenheima, nánar tiltekið í Matthíasarskóg hvar Ronja ræningjadóttir býr.“

Að vanda er leikritið sýnt um páska og eru sýningarnar vel sóttar af bæði heimamönnum sem og aðkomufólki sem sækir tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður á Ísafirði. Leikararnir sem fara með hlutverk hinna ungu vina Ronju og Birkis eru efnileg þó ung séu að árum, en Katrín Júlía Helgadóttir er 8 ára og Ástvaldur Mateusz Kristjánsson er 11 ára.

„Þegar sýningum Ronju lýkur ætla ég að taka mér smá pásu,“ segir Elfar Logi, en hann ætlar að taka sér frí næsta vetur. „Ég er orðin svo góður vinur leikaranna og það er sjaldnast holt í leikhúsinu. Ég hlakka bara til að sitja með lakkríspokann minn og sjá töfra leikfólksins á Þingeyri næsta vetur sem áhorfandi.“

Þess má geta að miðasala fer fram í síma: 863-1015.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA