Opinber umræða á Íslandi oft mjög höfuðborgarmiðuð

Á annan í páskum hefur göngu sína nýr umræðuþáttur, sem ber nafnið Landsbyggðalatté, á sjónvarpsstöðinni N4. Í þættinum verður víða komið við í umræðunni um landsbyggðamál, en nafnið á þættinum á að undirstrika þá staðreynd að hann muni brjóta upp klisjurnar sem oft einkenna umræður um byggðamál.

Þóroddur Bjarnason, einn þáttastjórnenda, segir að hugmyndin að þættinum hafi kviknað út frá facebook hópnum Umræður um byggðamál. “Þar eiga sér oft stað skemmtileg skoðanaskipti um ólíklegustu samfélagsmál. Það er þannig að opinber umræða á Íslandi er mjög höfuðborgarmiðuð, þar starfa stærstu og öflugustu fjölmiðlarnir, sem leita nánast alltaf til sérfræðinga og álitsgjafa á höfuðborgarsvæðinu.” Þóroddur heldur áfram og segir þetta verði til þess að umræðan snúist oft um hagsmuni, áskoranir og tækifæri borgarsamfélagsins. “Það er svo kannski nefnt í framhjáhlaupi að þetta séu auðvitað hagsmunir, áskoranir og tækifæri landsins alls.”

Þóroddur nefnir að svo séu vissulega mál sem stangast á og eru þá sérstaklega stimpluð sem byggðamál og umræðan um þau römmuð inn mjög þröngt. “Þannig eru ólíkir og oft andstæðir hagsmunir af t.d. nýtingu Vatnsmýrarinnar, kjarrskóga, fossa og fjarða, nú eða skipulagi opinberrar stjórnsýslu og þjónustu, smættaðir niður í annars vegar svonefnd „fagleg sjónarmið“ sem taka mið af hagsmunum og áhuga borgarbúa og hins vegar „byggðasjónarmið“ landsbyggðafólks, sem einkennist af kjördæmapoti og spillingu.”

Þóroddur kemur inn á að í þættinum muni verða reynt eftir fremsta megni að forðast þessa einfeldningslegu sýn á hagsmuni landsbyggðarinnar. “Landsbyggðin er fjölbreytt og stútfull af fólki með allskonar viðhorf, hagsmuni og markmið í lífinu. Við ætlum ekki að búa til nýja umræðuhefð, heldur einfaldlega finna farveg fyrir þá skemmtilegu og fjölbreyttu byggðaumræðu sem á sér stað um allt land, en nær sjaldan eða aldrei inn í opinbera umræðu fjölmiðlanna fyrir sunnan.”

Þóroddur segist vonast til að umræða þáttanna skili sér svo aftur út í almenna umræðu um allt land. “Þetta verður ekki hefðbundinn umræðuþáttur með stjórnanda og fulltrúum tiltekinna stofnana eða sjónarmiða, heldur líflegt spjall þar sem fólk lætur ýmislegt flakka, skoðar málin á röngunni og hættir sér út á hálan ís með ábyrgðarlausar vangaveltur.”

Auk Þórodds verða Brynhildur Pétursdóttir, Eva Pandóra Baldursdóttir og Jón Þorvaldur Heiðarsson fastir þátttakendur í þættinum, auk fjölmargra annarra, sem áhuga hafa á byggðamálum í sínum víðasta skilningi.

 

-Margrét Lilja Vilmundardóttir

margretliljavilmundardottir@gmail.com

DEILA