Jákvætt að verkefnið er farið af stað

Vegfarendur ættu að huga vel að færð hjá Vegagerðinni áður en lagt er í hann.

„Það er gott að verkefnið fari af stað í ár með rannsóknum. Þetta eru ekki stórar fjárhæðir en öll verkefni, stór eða smá, byrja í smáum skrefum og með rannsóknum. Það þurfti að berjast fyrir þessu fjármagni í Vestfjarðanefndinni,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks, segir að ekki hafi verið fært að hefja rannsóknir á Álftafjarðargöngum í fyrra vegna anna sem helguðust af verklokum Norðfjarðarganga og fyrstu skrefum í gerð Dýrafjarðarganga. Rannsóknir á Álftafjarðargöngum munu hefjast í ár.

Í svari Sigurðar Inga kemur einnig fram að ekki er víst hvort að Álftafjarðargöng verði inn á samgönguáætlun 2019-2030 sem á að leggja fram á þingi í haust en í núgildandi samgönguáætlun eru Fjarðarheiðagöng á Austfjörðum næst í röðinni.

Pétur segir að næsta verkefni verði að koma göngunum inn á samgönguáætlun. „Stóru fréttirnar eru að mínu viti að verkefnið er orðið opinbert og komið á fjárlög sem þýðir að það er komið af stað,“ segir Pétur.

DEILA