Spáir áframhaldandi vexti

Arnarlax vinnur nú að því í samstarfi við annað fyrirtæki og stofnanir að skapa verðmæti úr blóði eldisfiska. Myndin tengist fréttinni ekki.

„Nei ég held að það hafi enginn áhyggjur af ástandinu hér heima. Það er ennþá spáð áframhaldandi meiri vexti í eftirspurn en framboði á heimsmarkaði“, segir Kristján Þ. Davíðsson framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva í viðtali við Morgunblaðið laugardaginn 13. janúar. Rætt er við Kristján um fréttir frá Færeyjum en þar hefur laxeldisrisinn Bakkafrost sagt upp 147 starfsmönnum af 300 í vinnslustöð fyrirtækisins. Eru uppsagnirnar raktar til minnkandi eftirspurnar eftir eldislaxi. Fyrirtækið hafi gert færri sölusamninga en áður og lækkun á heimsmarkaðsverði á eldislaxi hafi áhrif á afkomu.

Kristján Davíðsson.

Kristján segir í samtali við Morgunblaðið að verð hafi farið mjög hátt í fyrra. Neytendur hafi brugðist við og stórmarkaðir minnkað hillupláss. „Verðið hefur lækkað aðeins síðan það var í hæstu hæðum í fyrra“, segir hann og telur ekki tilefni til að örvænta.

Nokkuð hefur verið rætt um mótvægisaðgerðir vegna erfðablöndunar villts fisks og eldisfisks og fullnægjandi mótvægisaðgerðir forsenda þess að laxeldi verði leyft í Ísafjarðardjúpi samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Kristján segir að eldismenn hafi fundað með Hafró og líti til þess að unnið verði úr tillögum að mótvægisaðgerðum. „Þá hefur Kristján Þór Júlíussson sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra boðað breytingar núna í mars. Við erum spennt að vita hvaða áhrif þær munu hafa.“

DEILA