Spáir áframhaldandi vexti

„Nei ég held að það hafi enginn áhyggjur af ástandinu hér heima. Það er ennþá spáð áframhaldandi meiri vexti í eftirspurn en framboði á heimsmarkaði“, segir Kristján Þ. Davíðsson framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva í viðtali við Morgunblaðið laugardaginn 13. janúar. Rætt er við Kristján um fréttir frá Færeyjum en þar hefur laxeldisrisinn Bakkafrost sagt upp 147 starfsmönnum af 300 í vinnslustöð fyrirtækisins. Eru uppsagnirnar raktar til minnkandi eftirspurnar eftir eldislaxi. Fyrirtækið hafi gert færri sölusamninga en áður og lækkun á heimsmarkaðsverði á eldislaxi hafi áhrif á afkomu.

Kristján Davíðsson.

Kristján segir í samtali við Morgunblaðið að verð hafi farið mjög hátt í fyrra. Neytendur hafi brugðist við og stórmarkaðir minnkað hillupláss. „Verðið hefur lækkað aðeins síðan það var í hæstu hæðum í fyrra“, segir hann og telur ekki tilefni til að örvænta.

Nokkuð hefur verið rætt um mótvægisaðgerðir vegna erfðablöndunar villts fisks og eldisfisks og fullnægjandi mótvægisaðgerðir forsenda þess að laxeldi verði leyft í Ísafjarðardjúpi samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Kristján segir að eldismenn hafi fundað með Hafró og líti til þess að unnið verði úr tillögum að mótvægisaðgerðum. „Þá hefur Kristján Þór Júlíussson sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra boðað breytingar núna í mars. Við erum spennt að vita hvaða áhrif þær munu hafa.“