Samspil þekkingarsamfélagsins og byggðaþróunar á Íslandi og í Skotlandi

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Í hugum margra eru einkenni þekkingarsamfélags tengd tækniþróun og þéttbýli, á meðan byggðaþróun er tengd dreifbýli. Gestur Vísindaports Háskólasetursins á morgun er dr. Anna Guðrún Edvardsdóttir og mun hún fjalla um doktorsrannsókn sína sem byggðist á að skoða samspil þekkingarsamfélagsins og byggðaþróunar á Vestfjörðum, Austurlandi og á Vestureyjum Skotlands. Athuguð voru áhrif ákveðinna sögulegra atburða á dreifðar byggðir; hin pólitíska orðræða um atburðina og hvort og þá hvernig háskólamenntun og rannsóknastarfsemi hvetur fólk til að hafa áhrif á samfélagið sitt.

Unnið var með kenningar um seiglu með áherslu á þekkingarsamfélagið og byggðaþróun sem félags- og vistfræðileg kerfi þar sem þekkingarfræðilegur fjölbreytileiki og  nám sem felur í sér þrjá ferla eru hluti af kerfinu. Einnig var byggt á kenningum um vist-femínisma og grenndarnám í byggðaþróun og mótun samfélaga. Gagnasöfnun fór fram með þrenns konar hætti: Ákveðnir sögulegir atburðir voru skoðaðir, sögulegri orðræðugreiningu var beitt við greiningu opinberra stefnumótunargagna og voru tekin viðtöl við fólk sem bjó á þessum svæðum.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er að byggðaþróun á rannsóknarsvæðunum snýst um efnahagslega þætti. Þekkingarsamfélagið gerir dreifðum byggðum kleift að dýpka tengslin við umhverfislega, félagslega og menningarlega þætti og skapa sjálfbær samfélög sem sýna seiglu.

Sett voru fram þrjú viðmið/tillögur sem gætu aukið seiglu samfélaga og stuðlað að því að þau verði sjálfbær. Fyrsta viðmiðið er að skapa samstarf á breiðum grunni meðal hagsmunaaðila við gerð samfélagsáætlana. Annað viðmiðið er að stofna samfélagssjóð sem heldur utan um náttúruauðlindir hvers samfélags. Þriðja viðmiðið er að skapa svæðisbundið samstarf og/eða á landsvísu á milli háskóla, rannsóknastofnana og þekkingarsetra.

Anna Guðrún Edvardsdóttir (f. 1960) lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1987, M.Ed. prófi í stjórnun menntastofnana frá sama skóla 2002. Á árunum 2011-2016 vann Anna Guðrún að doktorsrannsókn sinni og lauk hún doktórsprófi í menntunarfræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2016. Í dag starfar hún sem aðjunkt og rannsakandi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þá er hún einn af hluthöfum í rannsókna- og ráðgjafafyrirtækinu RORUM ehf.  Anna Guðrún hefur áður starfað sem kennari og skólastjórnandi um árabil á grunnskóla-, framhaldsskóla- og á háskólastigi, auk kennslu í fullorðinsfræðslu. Hefur hún unnið sem verkefnastjóri hjá Náttúrustofu Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og sem verkefnastjóri og kennari í frumgreinanámi við Háskólasetur Vestfjarða. Þar að auki hefur Anna Guðrún töluverða reynslu af sveitarstjórnarmálum. Sat hún í bæjarstjórn Bolungarvíkur um árabil, var formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar um tíma. Þá hefur hún sinnt stjórnarformennsku hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Markaðsstofu Vestfjarða og Atvinnufélagi Vestfjarða.  Í dag starfar Anna Guðrún sem aðjunkt og rannsakandi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þá er hún einn af hluthöfum í rannsókna- og ráðgjafafyrirtækinu RORUM ehf.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs og er á morgun föstudag kl. 12:10.

DEILA