Jón Eðvald íþróttamaður ársins

Hilmar Tryggvi og Jón Eðvald með viðurkenningar sínar.

Á lýðheilsudegi Strandabyggðar miðvikudaginn 17. janúar voru afhentar viðurkenningar fyrir afrek í íþróttum 2017 en árlega velur tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd íþróttamann ársins að undangengnum tilnefningum frá almenningi.  Á sama hátt og nefndin velur íþróttamann ársins er heimilt að velja einstakling eldri en 12 ára sem hlýtur hvatningarverðlaun en þau eru veitt íþróttamanni sem sýnir ríkan áhuga á sinni íþróttagrein, er góður félagi og góð fyrirmynd. Hvor um sig slítur viðurkenningarskjal og blómvönd en auk þess veitir Íþróttafélag lögreglumanna á Hólmavík Íþróttamanni ársins farandbikar.

Íþróttamaður ársins 2017 í Strandabyggð var valinn Jón Eðvald Halldórsson. Hann hefur frá unga aldri stundað íþróttir með góðum árangri. Hann hljóp m.a. hálfmaraþon í þriggja landa maraþoni á liðnu ári og  á árinu náði hann titlinum Landvættur, en þann titil hlýtursá einstaklingur sem lýkur keppni í eftirtöldum greinum á 12 mánaða tímabili:  Vesturhluti: 50 km í Fossavatnsgöngu, Norðurhluti: Jökulsárhlaup 32.7 km hlaup, Austurhluti: Urriðavatnssundið 2,5 km og Suðurhluti: Blue Lagoon Challenge-60 km hjólreiðar frá Hafnarfirði. Þessum keppnum lauk Jón Eðvald á samanlögðum tíma: 11:57:48.

Hilmar Tryggvi fékk hvatningarverðlaun Strandabyggðar. Hann náði frábærum árangri á gönguskíðum á síðasta ári og varð unglingameistari í hefðbundinni göngu og bikarmeistari SKÍ 2017 og þar með  fyrsti einstaklingurinn frá Skíðafélagi Strandamanna til að vinna svo sterk mót. Hann sigraði í skiptigöngu á Andrésar andarleikum og var annar í skícross með frjálsri aðferð. Hann varð fyrstur allra í mark í 12,5 km vegalengd í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði.  Hilmar leggur einnig stund á langhlaup og æfir skíði jafn vetur sem sumar.

DEILA