Vill ekki færa innanlandsflugið til Keflavíkur

Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir umbætur í samgöngum brýnustu verkefnin í ráðuneytinu. Hann segir von á auknu fjármagni til þeirra verkefna, sem verði kynnt á næstunni. Þá segir hann ljóst að ekki sé hægt að færa flugvöllinn úr Vatnsmýri fyrr en fyrir liggur önnur leið fyrir innanlandsflugið.

Sigurður Ingi var gestur á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. Hann segir að þó að byggðamálin séu mikilvægur og stór þáttur af verkefnum hans ráðuneytis, séu brýnustu verkefnin nú umbætur í samgöngum, ekki síst í vegakerfinu.

 

Sigurður Ingi var spurður hvort hann vilji festa innanlandsflugvöllinn í sessi í Vatnsmýri. Hann segir mikilvægt að ná fólki upp úr skotgröfunum í því máli. „Það er öllum ljóst að umræðan um þetta mál getur ekki verið í þeim skotgröfum að einn aðili segir að einn aðili segir að það eigi að loka flugvellinum eftir örfá ár á meðan að annar segir að það komi ekki til greina,“ segir Sigurður Ingi. „Auðvitað verðum við að finna út úr því, þú lokar ekki innanlandsflugi, sjúkraflugi, fyrr en einhver annar staður liggur fyrir.“

„Ég hef viljað skoða aðra kosti, við höfum viljað hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er þangað til að það liggur fyrir samkomulag um hvert við erum að fara og hvernig við ætlum að fjármagna það og byggja það upp og hvernig að það – ef við færum flugvöllinn – hvernig hann myndi tryggja með nákvæmlega sambærilegum hætti til að mynda sjúkraflug og aðgengi landsbyggðanna að stjórnsýslu landsins,“ segir Sigurður Ingi.

Honum hugnast ekki að færa innanlandsflugið til Keflavíkur. „Nei, mér hefur ekki þótt það vera ásættanlegt eins og er. Annars vegar er Keflavíkurflugvöllur ekki byggður upp sem sá millilandaflugvöllur sem hann er að þróast í og hvernig eigum við að koma innanlandsfluginu þá fyrir þar samhliða? Hvernig ætlum við að tryggja að þessar samgöngur, að þær séu nægilega fljótar?“ Hann bendir á að það sé kostur fyrir fólk af landsbyggðinni að ferðatíminn til höfuðborgarinnar sé sem stystur. „Og það sama gildir auðvitað um sjúkraflugið, þannig að það þarf að skoða alla þessa þætti heildstætt.“

DEILA