Það þarf enginn að þjást af söngskorti í desember enda mikil andans upplyfting að hlýða á fallegan söng. Hefð er fyrir því að tónlistarfólk standi fyrir tónleikum í aðdraganda jóla og desember árið 2017 er þar engin undantekning.

Karlakórinn Ernir ríður á vaðið með jólatónleikum í Félagsheimilinu í Bolungarvík í kvöld og hefjast tónleikarnir klukkan 8:00. Á morgun syngja þeir Ernismenn í Ísafjarðarkirkju og á mánudaginn þenja þeir raddböndin í Félagsheimilinu á Þingeyri.

Þann 6. desember verða styrktartónleikar Helga Guðsteins í Skjaldborg en nánar má lesa um þá hér.

Stórsöngvarinn Eyþór Ingi heldur tónleika í Ísafjarðarkirkju þriðjudaginn 5. desember og verður Sunnukórinn honum til halds og trausts. Fimmtudaginn 14. desember verður Eyþór Ingi í Patreksfjarðarkirkju og nýtur þar aðstoðar Kirkjukórs Patreksfjarðar.

Þann 9. desember kl. 17:00 stígur Kvennakórinn á stokk með íslensk jólalög undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar og undirleik Kristínar Hörpu. Einsöngvari er Sigrún Pálmadóttir.

Og 14. desember mæta Ragnheiður Gröndal, Svavar Knútur og Kristjana Stefáns í Edinborgarhúsið með tónleika sem þau kalla  „Eitthvað fallegt“ og rennur hluti ágóðans til góðgerðarmála

 

DEILA