Varð fyrir áreitni sem skattstjóri og sýslumaður

Sigríður Björk Guðjónsdóttir. Mynd: mbl.is / Eggert

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segist hafa orðið fyrir öllu því „helsta sem konur geta átt á hættu að verða fyrir þegar þær feta sig inn í heim karlanna.“ Þá hafi hún verið ungur skattstjóri og síðar sýslumaður á Ísafirði. Sigríður skrifar pistil á Facebook sem innlegg í #metoo herferðinni sem hófst í kjölfar uppljóstrana um kynferðislega áreitni voldugs framleiðanda kvikmynda og sjónvarpsefnis í Hollywood. Konur um allan heim hafa lýst ógnandi framkomu karla í sinn garð með myllumerkinu metoo.

Á Facebook skrifar Sigríður að konur séu hvergi alveg öruggar um að verða ekki fyrir óumbeðnum og óviðeigandi athugasemdum eða jafnvel snertingum. Lögreglan sem vinnustaður sé ekki þar undanskilin.

Sigríður skrifar: „Þó að sýslumenn teljist nokkuð valdamiklir þá hafði undirrituð þó ekki meiri völd en svo að henni mætti sem ungum skattstjóra, og síðar sýslumanni á Vestfjörðum, allt það helsta sem konur geta átt á hættu að verða fyrir þegar þær feta sig inn í heim karlanna. Kannski átti það þátt í að skapa mér skráp og nokkurn vott af harðfylgni en ég hefði þó gjarnan viljað vera laus við þessa reynslu.

Ég hef átt gott samstarf við flesta karlmenn í gegnum tíðina en staðreyndin er samt sú að það er ekki auðvelt fyrir þá að setja sig í spor okkar kvenna. Sú umræða sem kviknað hefur að undanförnu hefur þó vonandi opnað augu margra þeirra fyrir því alvarlega vandamáli sem áreitni gegn konum er.“

smari@bb.is

DEILA