Í nýrri grein sem birt var í Vísindariti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES Journal of Marine Science, er greint frá niðurstöðum viðamikilla rannsókna á erfðafræði Atlantslax. Rannsóknin var mjög viðamikil, safnað var sýnum úr 26.822 löxum úr 282 vatnakerfum í 13 Evrópulöndum. Tveir íslenskir vísindamenn eru meðhöfundar greinarinnar, þeir Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Kristinn Ólafsson sem starfaði fyrir Matís. Gögnin sýna að íslenskur lax er fjarskyldur öðrum evrópskum laxastofnum. Annars staðar í álfunni greinist laxinn í tvo meginhópa, norðurhóp og suðurhóp. Síðan er hægt að greina lax í erfðahópa eftir svæðum. Með þessum gögnum er unnt að rekja lax sem veiðist í sjó til síns heima, annað hvort eftir landsvæði eða til ákveðinnar áar.
Íslenskur lax skiptist einnig í hópa. Þar eru tveir meginhópar, annar á Norðurlandi, hinn á Vesturlandi. Líklegt er að lax á Suðurlandi myndi þriðja hópinn, en frekari rannsókna er þörf til að staðfesta það. Í flestum laxveiðiám landsins er sérstakur stofn.
smari@bb.is