Framtíðin er vinstri græn

Sigríður Gísladóttir

Spjótin hafa staðið á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði síðustu daga í greinaskrifum vestfirskra sjálfstæðismanna. Tilgangurinn er augljós, að þyrla upp ryki svo að fókusinn færist af því sem þessar kosningar snúast um; hvaða stjórnmálamönnum er treystandi til að byggja upp réttlátt samfélag þar sem jöfnuður ríkir milli landsmanna.

Í grein Halldórs Jónssonar leggur hann mikið upp úr því að þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, Lilja Rafney Magnúsdóttir, hafi ekki gerst meðflutningsmaður að sérlögum um vegagerð í Gufudalssveit, oftast nefnd vegagerð um Teigsskóg. Það er rétt hjá Halldóri að þingmaðurinn lagði ekki nafn sitt við þetta frumvarp, enda er það vanhugsað og ekki til annars en að slá pólitískar keilur heima í héraði.

Fyrir rétt rúmu ári lagði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fram frumvarp sama eðlis nema þá átti að grípa fram fyrir hendur á lögboðnu ferli við útgáfu framkvæmdaleyfa vegna lagningu raflína til Bakka. Á þeim tíma sat þingmaðurinn sem fulltrúi VG í atvinnuveganefnd og þegar frumvarpið kom til meðferðar nefndarinnar var fundað stíft um málið enda lítill tími til stefnu og stutt í þinglok. Það varð deginum ljósara að inngrip í lögboðið ferli er bæði umdeilt og lagalega vafasamt – líklegast ógerningur. Nefndinni bárust fleiri en eitt lögfræðilegt álit sem sögðu að þessi leið væri ekki fær og bryti gegn sáttmálum sem Ísland hefur undirgengist. Þá er einboðið að sérlög verði kærð og í tilfelli Bakkalínanna kom það á daginn að Landvernd ætlaði að kæra lagasetninguna til ESA. Það hefði að öllum líkindum verið eitt af mörgum kærumálum sem lögin hefðu framkallað.

Það fór svo að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, dró frumvarpið til baka enda einsýnt að málið stefndi rakleiðis niður blindgötuna.

En hvað á að gera?

Við Vestfirðingar erum allir sem einn orðnir langþreyttir á Teigsskógsþrætunni og viljum fara að sjá eitthvað gerast. Um það erum við öll sammála. Eins og þeir sem fylgjast með málinu vita er það nú á borði Reykhólahrepps að breyta aðalskipulagi hreppsins og niðurstöðu hreppsins er að vænta um áramótin. Þá fyrst verður ljóst hvort að ný veglína muni liggja í gegnum Teigsskóg og þá getur Vegagerðin sótt um framkvæmdaleyfi.

Í stað þess að bjóða Vestfirðingum upp á enn eina lagaþrætuna um Teigsskóg hafa Vinstri græn lagt til að Vegagerðin hefji framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar, enda er sá kafli framkvæmdanna lítt umdeildur og hluti af báðum veglínum sem helst koma til álita, þ.e.a.s. leiðinni um Teigsskóg og svo leiðinni undir Hjallaháls. Þessar framkvæmdir ættu að geta hafist innan skamms og sé það einlægur vilji þingmanna að flýta framkvæmdum er ljóst að þessi leið kemur að mestu gagni.

Vinstri græn og fiskeldi

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með uppbyggingu fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum. En fiskeldi er umdeilt eins og við vitum öll og það er hægt að gera hlutina vel og það er hægt að gera hlutina illa. Stjórnmálaflokkarnir hafa því miður að mestu staðið stikkfrí og horft á darraðadansinn. Það gerðum við í VG ekki. Á nýafstöðnum landsfundi ræddum við málið og mótuðum okkur stefnu.

Rauður þráður í stefnu VG í fiskeldi er að við viljum fara varlega – við þekkjum dæmi um að farið hefur verið of geyst í fiskeldi, ekki bara á Íslandi heldur í nágrannalöndunum. Kapp er best með forsjá og hvorki fyrirtækjum né byggðarlögum er greiði gerður með rússíbanareið. Uppbyggingin þarf að gerast í ákveðnum skrefum með fagmennsku að leiðarljósi. Við þurfum fyrirtæki sem af þrautseigju og þolinmæði geta byggt upp faglegt fiskeldi og orðið burðarás í atvinnulífi á Vestfjörðum.

 Fiskeldi í fremstu röð

Eins og við vitum var útkoman úr áhættumatinu ekki eins og íbúar við Djúp vildu. Þrátt fyrir áhættumatið og allan hávaðann sem það skapaði, er síður en svo öll nótt úti. Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa bent á leiðir til að minnka umhverfisáhættuna í Ísafjarðardjúpi.

Það er því ánægjulegt að fiskeldisfyrirtækin og Hafrannsóknastofnun skuli nú vinna hörðum höndum að nýjum leiðum sem munu gera fiskeldi í Ísafjarðardjúpi í fremstu röð – rétt eins og við í VG viljum sjá.

Það er á þessum grunni sem stefna VG í fiskeldi stendur.

Almannahagsmunir í forgrunni

Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar sem Svandís Svavarsdóttir þáverandi umhverfisráðherra lagði fram og allur þingflokkur VG samþykkti. Hið sama verður ekki sagt um þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem greiddu atkvæði gegn rammaáætluninni. Í ljósi þessa er mikilvægt að Hvalárvirkjun komi Vestfirðingum til góða, með því að orkan verði nýtt í fjórðungnum í þarfa uppbyggingu eða hún verði til þess að dreifikerfið styrkist og það sé hafið yfir vafa og fyrir liggi tímasett áætlun um að Vestfirðir komist inn í nútímann í raforkumálum. Sú skoðun byggir á því að almannahagsmunir verði í forgrunni.

Í allri umræðunni um Hvalárvirkjun hafa varnaðarorð þingmannsefnis VG í Suðurkjördæmi, Heiðu Guðnýjar Ásgeirsdóttur sauðfjárbónda, drukknað í flaumi innistæðulítilla loforða frá stjórnmálamönnum um hringtengingar og raforkuöryggi. Á borgarafundi í Árneshreppi í sumar talaði hún af reynslu þegar hún varaði hreppsbúa og aðra við því að láta málið verða að rýtingi inn í brothætt samfélög, sem eiga kannski aðeins samstöðuna eftir, í baráttunni fyrir tilvist sinni.

Vestfirðingar eiga betra skilið en skammsýni og sundrung meðal þeirra sem vilja landshlutanum allt gott, en það er mikilvægt að greina kjarnann frá hisminu í umræðunni um stóru málin okkar í dag.

Síðast en ekki síst skal minnt á að það er ekki vinstristefnu að kenna að Vestfirðir hafa farið halloka síðustu áratugi, heldur skrifast það á óhefta markaðsvæðingu lífsbjargarinnar sem hefur verið seld úr héraði til hagsbóta fyrir örfáar fjölskyldur.

Sigríður Gísladóttir, Ísafirði

Höfundur skipar 9. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi

DEILA