Teigsskógur gæti orðið prófsteinn á náttúrverndarlögin

Teigsskógur í Þorskafirði.

Það verður ekki einfalt mál fyrir Reykhólahrepp að rökstyðja að fara gegn áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati Vegagerðarinnar á Vestfjarðavegi 60, oftast kallaður vegurinn um Teigsskóg. Í skipulagsvinnu hreppsins eru tvær veglínur til skoðunar, um Teigsskóg annars vegar og jarðgöng undir Hjallaháls hins vegar.

Skipulagsstofnun skikkaði hreppinn til ráðast í gagngera endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins þrátt fyrir að veglína um Teigsskóg hafi verið til staðar í gildandi skipulagi. Sú veglína miðast við eldra umhverfismat sem Skipulagsstofnun úrskurðaði gegn fyrir um áratug síðan og þáverandi samgönguráðherra felldi úrskurðinn úr gildi. Sú ákvörðun var kærð til dómstóla og á endanum staðfesti Hæstiréttur að ákvörðun Skipulagsstofnunar skildi standa.

Þegar Vegagerðin ákvað að gera annað umhverfismat var veglínunni hnikað til að hlífa Teigsskógi í meiri mæli en áður. Skipulaggstofnun telur að vegna breyttrar veglínu, og þá gildir einu þó að um lítilsháttar breytingar sé að ræða, þurfi að ráðast í gerð nýs aðalskipulags. Skipulagsstofnun gaf álit sitt á seinna umhverfismatinu í mars 2017 og þar var aftur lagst gegn veglagningu um Teigsskóg.

Þolinmæðin þrotin

„Við þurfum að rökstyðja okkar ákvörðun mjög vel og þess vegna erum við meðal annars að láta gera rannsókn á samfélagsþættinum sem við teljum að hljóti að vega þungt. En fyrst og fremst þarf Vegagerðin að rökstyðja afhverju hún vill fara þessa leið umfram aðra,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps. Endanlegrar ákvörðunar Reykhólahrepps er að vænta um áramótin.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir.

Hún leggur áherslu á að vel þurfi að vanda til verka og betra að flýta sér hægt. „Í svona flókinni vinnu er hætt við að gera mistök sem aftur geta verið tilefni dómsmála og því borgar sig að flýta sér hægt og þrátt fyrir að þolinmæðin sé fyrir löngu þrotin þá þýðir ekkert að gefast upp. Það verður að halda áfram og vanda sig,“ segir hún.

Teigsskógur gæti orðið prófsteinn

Teigsskógssagan rekur sig hátt á annan áratug aftur í tímann og frá því að fyrsta umhverfismatið féll í meðförum Skipulagsstofnunar og síðar í Hæstarétti hafa tekið gildi ný náttúrverndarlög þar sem kveðið er á um verndun vistkerfa eins og t.d. náttúrlegra birkiskóga sem þykja hafa sérstakt gildi. Ekki má raska þeim nema brýna nauðsyn beri til og sýnt þykir að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. „Það er svo ekki skilgreint nánar hvað eru brýnir hagsmunir og lögin eru nýleg og það hefur ekki reynt á þetta ákvæði enn,“ segir Ingibjörg Birna. Fari það svo að Reykhólahreppur ákveði að veglínan skuli liggja um Teigsskóg gæti þessi lagagrein verið tilefni málsóknar. „Við óttumst að við gætum orðið prófsteinn á þessa grein náttúruverndarlaga.“

Alþingismenn í Norðvesturkjördæmi hafa síðustu vikur talað um lagasetningu sem heimili vegagerð í Teigskógi. Sveitarstjórinn hefur fullan skilning á þeim röddum. „En það er ekki okkar slagur, fyrir okkur er ekki neitt annað í boði en að vanda sig og vinna eftir þeim leikreglum sem Alþingi setur okkur,“ segir Ingibjörg Birna að lokum.

DEILA