Allar líkur á að kalkþörungaverksmiðja rísi

Sveitarstjórinn í Súðavíkurhreppi telur allar líkur á að kalkþörungaverksmiðja verði reist í Súðavík innan ekki langs tíma.

Frummatsskýrsla Íslenska kalkþörungafélagsins var kynnt á íbúafundi í Súðavík í gær og einnig skýrsla KPMG um hagrænum áhrif verksmiðjunnar. „Þetta var góður fundur og það mættu Súðvíkingar, Ísfirðingar og Bolvíkingar. Það var ánægjulegt að sjá nágranna okkar á fundinum enda skiptir þetta okkur öll máli,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Nokkur ár eru síðan Íslenska kalkþörungafélagið kynnti fyrst áform um kalkþörungavinnslu í Ísafjarðardjúpi. Það sem hefur staðið verkefninu fyrir þrifum í Súðavík er afhending raforku. „Við teljum okkur vera búin að leysa það með því að keyra verksmiðjuna með gasi þangað til raforkukerfið verður komið í nútímahorf og við getum afhent 10 megavött,“ segir Pétur.

Samkvæmt mati KPMG getur verksmiðjan skapað 42 bein og óbein störf og strax á byggingartíma átján störf.

Aðspurður hvað hreppurinn þurfi að gera til að verkefnið verði að veruleika segir Pétur að ákvörðun hreppsins sé skipulagsákvörðun og einnig þurfi að nást eðlilegir samningar við fyrirtækið um hafnarþjónustu sem Pétur hefur fulla trú á að gangi vel fyrir sig.

Áformað er að verksmiðjan rísi á Langeyri og samhliða verksmiðjunni þarf að byggja upp hafnaraðstöðu. „Langeyrin hentar vel fyrir hafnarkant, þar er mikið dýpi. En Langeyrin er líka falleg og það var eitt af því sem var rætt á fundinum í gær,“ segir Pétur.

smari@bb.is

DEILA