„Samgönguleysið hefur kostað Vestfirðinga mikið“

Lélegar samgöngur hafa kostað Vestfirðinga mikið og þrátt fyrir að Dýrafjarðargöng verði mikil samgöngubót eru stór samgöngumál ennþá óleyst. Þetta kom fram í ræðu Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, við hátíðarsprengingu Dýrafjarðarganga í gær. Gísli Halldór nefndi í því sambandi Teigsskógsmálið, heilsársveg yfir Dynjandisheiði, hafnarframkvæmdir og skoðun á möguleikum á fullnægjandi flugsamöngum við Vestfirði.

„Samgönguleysið hefur kostað Vestfirðinga mikið. Skortur á samgöngum og tilheyrandi óhagræði og kostnaður hefur meðal annars valdið því að hagkvæmnidrifið kvótakerfi, sem ekkert tillit tók til samfélags eða byggðafestu, hefur grafið undan byggð á Vestfjörðum – hröðum skrefum. Þúsund manns hurfu úr Ísafjarðarbæ einum. Einangrun Suðurfjarðanna var slík að þar voru byggðir komnar að fótum fram, þangað til fiskeldið hófst og viðsnúningur hefur orðið. Við höfum tapað fólki og fjölmörgum tækifærum vegna samgönguleysis,“ sagði Gísli Halldór.

Um vegagerð í Gufudalssveit sagði Gísli Halldór þetta: „Þegar rætt er um samgöngur er full ástæða til að geta fyrirhugaðrar vegalagningar um Teigskóg. Við getum ekki lengur sætt okkur við að íbúar og samfélag séu látin mæta hreinum afgangi þegar framkvæmdir eru metnar með umhverfisáhrifum. Gífurlegir samfélagshagsmunir krefjast þess að löggjafinn grípi nú inn í – í ljósi þeirra hagsmuna – og setji lög til að heimila veglagningu samkvæmt leið Þ-H, ef þess er nokkur kostur.“

smari@bb.is

Hér er ræða Gísla í heild sinni.

Ráðherra, þingmenn, bormenn – aðrir góðir gestir.

Mig langar að byrja á því að óska okkur öllum hjartanlega til hamingju með þann viðburð að vinna við Dýrafjarðargöng skuli nú hafin. Ekki er annað að heyra en að mikill vilji sé hjá stjórnvöldum og Vegagerð að standa vel að þessum göngum og þeim verkum sem óhjákvæmilega fylgja – það er að segja vegagerð um Dynjandisheiði. Vissulega viljum við að þetta gerist með sem mestum hraða, en fyrir öllu er að verkið er nú hafið af fullum heilindum.

Hún var löng sú bið – biðin eftir að hafist yrði handa við Dýrafjarðargöng. Ennþá lengri hefur hún verið, bið Vestfirðinga eftir fullnægjandi samgöngum. Samgönguleysið hefur kostað Vestfirðinga mikið. Skortur á samgöngum og tilheyrandi óhagræði og kostnaður hefur meðal annars valdið því að hagkvæmnidrifið kvótakerfi, sem ekkert tillit tók til samfélags eða byggðafestu, hefur grafið undan byggð á Vestfjörðum – hröðum skrefum. Þúsund manns hurfu úr Ísafjarðarbæ einum. Einangrun Suðurfjarðanna var slík að þar voru byggðir komnar að fótum fram, þangað til fiskeldið hófst og viðsnúningur hefur orðið. Við höfum tapað fólki og fjölmörgum tækifærum vegna samgönguleysis.

Það er því rík ástæða til að þakka öllum þeim sem hafa komið okkur í þau spor nú að Dýrafjarðargöng eru að verða að veruleika. Fjölmargt af því fólki er hér statt í dag.

Mikilvægi samgangna og annarra traustra innviða verður ekki tíundað um of. Traustir innviðir sem tryggja að fólk geti búið við sambærilega þjónustu og möguleika og aðrir landsmenn eru lykillinn að búsetu fólks á Vestfjörðum. Fólk sem hefur tækifæri og aðstöðu mun verða sinnar gæfu smiðir. Fólk með trausta innviði getur skapað störfin sem nauðsynleg eru því til viðurværis.

Innviðir á borð við samgöngur, raforku og samskiptaleiðir sem tryggja aðgengi að þjónustu sem allir Íslendingar nútímans telja sjálfsagða og nauðsynlega ættu að vera algert forgangsmál.

Þegar rætt er um samgöngur er full ástæða til að geta fyrirhugaðrar vegalagningar um Teigskóg. Við getum ekki lengur sætt okkur við að íbúar og samfélög séu látin mæta hreinum afgangi þegar framkvæmdir eru metnar með umhverfisáhrifum. Gífurlegir samfélagshagsmunir krefjast þess að löggjafinn grípi nú inn í – í ljósi þeirra hagsmuna – og setji lög til að heimila veglagningu samkvæmt leið Þ-H, ef þess er nokkur kostur.

Auk frekari framfara í vegasamgöngum er brýn nauðsyn til að fé sé varið til hafnarframkvæmda á Vestfjörðum. Því til viðbótar er áríðandi að hafin verið skoðun á því hvaða möguleikar eru á að tryggja fullnægjandi flugsamgöngur við Vestfirði. Gera þarf rannsóknir sem leiða það til lykta hvort hægt er að útbúa flugvöll sem tryggir 90% nýtingu – líkt og nútímastaðlar gera kröfur til. Jafnvel þó ekki fáist fjármagn til framkvæmda á næstu árum þá er nauðsynlegt að svörin liggi fyrir, ef slík staðsetning finnst fyrir flugvallarstæði. Í ljósi fyrirhugaðra fiskeldisáforma, sem gætu jafnframt stuðlað að auknum sjávarútvegi á Vestfjörðum, er einnig brýnt að gera samskonar könnun á möguleikum til að gerður verði flugvöllur til millilandaflugs á svæðinu.

Annað mikilvægt verkefni er hringtenging rafmagns á Vestfjörðum um Ísafjarðardjúp. Það er ljóst að slíkri hringtengingu þarf að fylgja nægileg orkuframleiðsla á Vestfjörðum til þess að hringurinn slái ekki út þegar Vesturlína fer – sem hún gerir alltaf af og til. Slík orkuframleiðsla er heimil samkvæmt rammaáætlun – í Hvalá. Með fullnægjandi rafstreng um Ísafjarðardjúp skapast miklir möguleikar, með enn óþekktum tækifærum.

Samskiptainnviðir eru nú í hraðri framþróun á Vestfjörðum sem annarsstaðar. Þessum innviðum þarf að fylgja stuðningur frá stjórnvöldum við það verkefni að jafna aðstöðu fólks og veita eins mikla þjónustu og hægt er með nýrri tækni. Í dag munum við á Þingeyri undirrita samning við ráðherra um Blábankann. Blábankinn er þróunarverkefni sem búið er að tryggja allt að 5 ára starfstíma, með dyggum stuðningi stjórnvalda. Þar munum við leita allra leiða til að skapa þá aðstöðu á Þingeyri að íbúar geti fengið sem mest af þeirri þjónustu sem eðlilegt er að gera kröfu til í dag. Mikilvægt er að ríkisstofnanir sýni frumkvæði í að veita þjónustu um þessa gátt. Ef til vill þarf lagabreytingar til að heimila afhendingu á einhverri þjónustu eða vörum. Ef vel tekst til með Blábankann þá getur hann orðið fyrirmynd af samskonar aðstöðu í öllum þorpum landsins sem nú búa við óásættanlega einangrun hvað þjónustu varðar.

Til að fá aukinn slagkraft í uppbyggingu innviða getur laxeldi í Ísafjarðardjúpi leikið aðalhlutverk. Þar er einnig brýnt að tekið sé tillit til samfélagslegra hagsmuna þegar ákvarðanir um eldið eru teknar. Ríkisstjórnin þarf að gefa skýr skilaboð í því máli – að hafið verði laxeldi í Ísafjarðardjúpi með þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að tryggja ásættanlega lágmarksáhættu fyrir laxveiðiár í Djúpinu.

Mér er fullkunnugt um skilning hæstvirts samgönguráðherra á mikilvægi þess að byggja upp innviði og þann áhuga sem hann hefur á að vinna þeim málum framgang. Vonandi nær hann góðum árangri í þeim málum. Ég vil brýna hann um að auka veg hafnarframkvæmda í fjárlögum og horfa til slíkra verkefna hér á Vestfjörðum. Á þessari stundu vil ég þó helst hvetja ráðherrann til þess að róa að því öllum árum að gerðar verði fullnægjandi rannsóknir á möguleikum til nútímalegra flugsamgangna á Vestfjörðum. Það er eftir engu að bíða þar, jafnvel þó framkvæmdirnar sjálfar verði ekki handan við hornið.

En í dag ætlum við að fagna. Við fögnum öllum þeim miklu tækifærum sem felast í tilkomu Dýrafjarðarganga. Samstarf og samstaða Vestfirðinga getur náð nýjum hæðum. Atvinnulífi bjóðast stóraukin tækifæri með þessari nýju samgönguleið. Þá bjóðast miklir möguleikar í menntamálum og bættri heilbrigðisþjónustu. Nýjar víddir opnast í ferðaþjónustu, enda hafa Vestfirðingar orðið áþreifanlega varir við það hve farartálminn Hrafnseyrarheiði hefur haft vond áhrif á erlenda ferðamenn. Menning, íþróttir, verslun og þjónusta eru allt þættir sem geta fundið ný tækifæri með tilkomu Dýrafjarðaganga.

——————

Ég ítreka því upphafsorð mín. Til hamingju!

DEILA