Ljós í götuskápum Mílu

Nú hefur verið kveikt á fjórum götuskápum á Ísafirði sem tengjast efri bænum og Holtahverfinu en um er að ræða götuskápa sem hafa staðið tilbúnir til að þjóna íbúum í nokkur ár, en ekki fengist leyfi til að setja þá í notkun. Kveikt var á þeim nú um mánaðarmótin og hafa íbúar við viðkomandi götur nú möguleika á að tengjast Ljósneti Mílu. Um er að ræða 143 heimilisföng við Engjaveg 22 til 34, Eyrargötu 1 til 8, Fjarðarstræti, Hjallaveg, Hlíðarveg 15 – 48, Hnífsdalsveg (1, 8, og 10) Krók, Miðtún, Seljalandsveg, Sætún, Túngötu og Urðarveg.

Til að nýta sér tenginguna þurfa íbúar að hafa samband við sitt fjarskiptafyrirtæki og panta þjónustu um Ljósnetið.  Öll fjarskiptafyrirtæki á markaði hafa aðgang að kerfi Mílu og geta því boðið sína þjónustu um kerfið.

Með því að tengjast Ljósnetinu þá fá heimilin nú möguleika á 50 Mb/s tengingu sem er mun hraðari tenging en fæst með hefðbundinni ADSL tengingu. Ljósnetið gefur m.a. möguleika á að vera með fleiri en 2 háskerpusjónvörp, nýta sér þjónustu streymisveitna eins og Netflix, hlusta á tónlist á vefnum, allt á sama tíma.

bryndis@bb.is

DEILA