Lísbet Harðar Ólafardóttir almúligtkona og samkvæmt facebook eigandi fyrirtækisins Laxi og lagsi, hefur nú lagfært sundparið fyrir framan Sundhöll Ísafjarðar. Nef sundkonunnar hafði brotnað en nú hefur hún fengið sterklegt og fallegt nýtt nef og máluð frá toppi til táar.
Það var Martinus Simson sem bjó til stytturnar, sá hinn sami og gerði Simsonsgarð inn í Tungudal. Simson var afar merkilegur maður, hann smíðaði útvarpstæki, kenndi radíotækni, lagði stund á listmálun, teikningu og höggmyndasmíð, en hans ær og kýr voru andleg vísindi. Áður en hann flutti á Ísafjörð um þrítugt starfaði hann sem trúður tannaflaraunamaður og hugsanalesari í farandflokki fjölleikamanna.
Morgunblaðið tók viðtal við Martinus í tilefni 85 ára afmælis hans, árið 1971, þar segir hann meðal annars „Það hefur verið sagt og skrifað um mig, að ég væri meiri Íslendingur en margir þeirra sem hér eru fæddir og uppaldir. En þetta er ekki rétt. Ég hef aldrei haft þessa föðurlandsást eða ölluheldur föðurlandseigingirni sem aðrir hafa. Fyrir mér er allt fólk jafngott, hvort sem þar er um að ræða Þjóðverja, Englendinga, Dani eða Íslendingar. Þetta er fyrst og fremst fólk.“
Lokaorð hans í þessu viðtali ættu að hlýja Ísfirðingum um hjartarætur „Ég hlakka til að koma aftur heim til Ísafjarðar, því að dásamlegri staður er ekki til á jörðinni og þar hef ég mætt svo mikilli hlýju, vináttu og kærleika.“
Það vakti athygli tíðindakonu bb.is hvað börnin sóttu í styttunna, í stuttu stoppi í garðinum hlupu tvö börn skyndilega að styttunni og föðmuðu hana, stukku svo aftur í leik.
Eins og sjá má á þessari mynd var komin tími til að lagfæra þessa fallegu styttu.
bryndis@bb.is