Horfur Vestra í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu vænkuðust ekki um helgina. Á laugardag átti liðið fyrir höndum erfiðan útileik gegn Njarðvíkingum sem sitja í toppsæti deildarinnar. Eftir stundafjórðungs leik voru Suðurnesjamennirnir komnir með tveggja marka forystu og skoraði Kenneth Hogg bæði mörkin. Birkir Freyr Sigurðsson kom Njarðvík í 3-0 í upphafi seinni hálfleiks, en stuttu síðar minnkaði Pétur Bjarnason muninn. Eftir það voru fleiri mörk ekki skoruð og lokatölur 3-1 fyrir Njarðvík.
Eftir leikinn er Vestri með í 8. sæti deildarinnar með 21 stig, sama stigafjölda og KV, Höttur og Fjarðabyggð. Liðin fjögur berjast um að halda sér frá fallinu, en lið Sindra er þegar fallið í 3. deild.
Síðustu þrír leikir Vestra eru:
Heimaleikur gegn Aftureldingu laugardaginn 9. september.
Útileikur gegn Magna laugardaginn 16. september.
Heimaleikur gegn Hetti laugardaginn 23. september.
smari@bb.is