„Matið hefur verið gagnrýnt af hálfu ýmissa, sveitarstjórnarmanna og vísindamanna þar á meðal. Hafrannsóknastofnun tekur það mjög alvarlega og er að fara yfir sín gögn. Stofnunin undirstrikar það að þetta er lifandi plagg og getur tekið breytingum, bæði í þá veru að auka fiskeldi og minnka það,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við blaðamann mbl.is og leggur áherslu á að stjórnmálamenn fari eftir ráðleggingum vísindamanna og áréttar þær hafi reynst vel í fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Samkvæmt áhættumatinu verður ekkert fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og starfshópur sjávarútvegsráðherra hefur beint því til ráðherrans að áhættumatið verði bundið í lög. Í samtali blaðamanns mbl.is við Þorgerði Katrínu kemur fram að næsta skref hjá henni er að undirbúa lagafrumvarp byggt á tillögum starfshópsins. Strax á fyrsta sólarhringnum eftir að tillögurnar komu fram er ljóst að ekki er einhugur meðal stjórnarliða um tillögurnar. Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur sagt að hann geti ekki stutt þetta „lifandi plagg“ sem hættumatið er, enda sé það „andvanda fætt“, eins og hann kemst að orði á Facebooksíðu sinni.
smari@bb.is