Ríkisendurskoðandi tekur út lokun neyðarbrautar

Neyðarbrautin á Reykjavíkurflugvelli. Mynd: Óli Haukur.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur óskað eftir því að ríkisendurskoðandi vinni stjórnsýsluúttekt á því hvernig staðið var að ákvörðun um að loka flugbraut 06/24 – oft nefnd neyðarbraut – á Reykjavíkurflugvelli út frá gildandi lögum og stöðlum.

Í beiðni nefndarinnar til ríkisendurskoðana kemur fram að markmið úttektarinnar verði að leiða í ljós hvort stjórnsýsla málsins sé nægilega vönduð, hvort ábyrgð sé skýr og hvort nýting ríkisfjár sé forsvararanleg og hvað gera hefði mátt betur.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telur rétt að stjórnsýsluúttektin miðist við að varpa ljósi á og upplýsa um samskipti stjórnvalda og Reykjavíkurborgar, samskipti þessara aðila við aðra í stjórnsýslunni og þá sérstaklega lögformleg samskipti Isavia ohf. og Samgöngustofu.

Nefndin beinir því  einnig til ríkisendurskoðanda að kanna aðra þætti sem varða stöðu Reykjavíkurflugvallar sem embættið telur að rétt að skoða, svo að heildarmynd fáist af stjórnsýslu í málefnum vallarins a.m.k. frá byrjun árs 2013 til dagsins í dag.

Héraðsdómur dæmdi í mars í fyrra að ríkinu væri skylt að loka brautinni og Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu í maí sama ár.  Í dómsorði héraðsdóms sagði að innanríkisráðherra ætti að endurskoða skipulagsreglur til samræmis við þá lokun.

DEILA