Skóflustungu aflýst vegna ófærðar – sýnir mikilvægi Dýrafjarðarganga

Gangamunni Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Ráðgert var að taka fyrstu skóflustungu Dýrafjarðarganga á morgun en vegna ófærðar á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði hefur því verið aflýst. Einnig átti að vera dagskrá á Hrafnseyri þar sem fjallað yrði um Dýrafjarðargöng og vegagerð á Vestfjörðum.

Ákveðið að blása til skóflustungunnar og dagskrár á Hrafnseyri þegar ekkert varð af undirritun verksamninga á Hrafnseyri á sumardaginn fyrsta, en þá tepptist heiðin skyndilega í norðanhreti og undirritunin var færð til Reykjavíkur. Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangaframkvæmda Vegagerðarinnar, segir óvíst hvort að samkomunni verði frestað að alfarið hætt við hana en segir önnur tilefni gefist síðar í verkinu til að koma saman.

„Ég ætla ekki að kenna arnfirskum galdramönnum um þetta þó að einhverjir hafi verið nefndir en þetta veðurlag sýnir að ekki er vafamál að það vantar göng,“ segir Gísli.

Í ár er ráðgert að vinna fyrir 1.500 milljónir króna samkvæmt fjárlögum og fyrir um 3 milljarða á því næsta. Tilboð Metrostav a.s. og Suðurverks hf. í gerð Dýrafjarðarganga nam tæpum 8,7 milljörðum króna, eða rúmum 93 prósentum af kostnaðaráætlun, og var um 630 milljónum króna lægra en næstu boð sem bæði voru nánast það sama og kostnaðaráætlunin.

Framkvæmdir hefjast í lok sumar eða í haust.

DEILA