Íslandsmót í blaki um helgina

Um helgina heldur blakdeild Vestra Íslandsmót í blaki fyrir 4.-6. flokk. Á mótið koma lið víðsvegar að af landinu, og verða þátttakendur um 170 talsins og eru þá ótaldir fararstjórar og þjálfarar. Leiknir verða rúmlega 80 blakleikir á fjórum völlum í íþróttahúsinu á Torfnesi og eru allir velkomnir að koma og styðja við bakið á sínu fólki, en bæði Vestri og Stefnir verða með nokkur lið á mótinu. Einnig eru væntanleg lið frá Aftureldingu, HK, Þrótti Reykjavík, Völsungi Húsavík, KA, BF Siglufirði og Þrótti Nes.

Vestfirskir blakarar hafa verið að gera góða hluti í íþróttinni undanfarin ár og um síðustu helgi tóku þeir þátt í öldungamóti Blaksambandsins sem fram fór í Mosfellsbæ. Á mótinu kepptu 167 lið – samtals nálægt 1500 keppendur. Vestri sendi þrjú lið sem kepptu undir gamla nafninu „Skellur.“ Skemmst er frá því að segja að öll lið komust á pall. Karlaliðið náði 3. sæti í 3. deild. A-lið kvenna náði 3. sæti í 5. deild og B-liðið náðu 2. sæti í 10. deild eftir naumt tap í úrslitaleik og fara þar með upp um deild.

annska@bb.is

DEILA