Endurkjörin í stjórn Landsbjargar

Stjórn Slysavarnafélagins Landsbjargar.

Á landsþingi Slysavarnafélagins Landsbjargar sem fór fram á Akureyri um helgina var kjörin ný stjórn félagsins. Sjálfkjörinn formaður var Smári Sigurðsson sem gegnt hefur formennskunni síðustu tvö ár. Meðal þeirra sem sitja í hinni nýju stjórn er Ísfirðingurinn Auður Yngvadóttir sem starfað hefur með  Björgunarfélagi Ísafjarðar um árabil og setið í stjórn Landsbjargar. Valur S. Valgeirsson, formaður björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri var einnig endurkjörin í stjórn Landsbjargar.

Fjölmenni var á landsþinginu og sóttu það um sex hundruð félagar Slysavarnafélagsins Landsbjargar, þar sem auk hefðbundinna þingstarfa fóru fram björgunarleikar félagsins þar sem att er kappi í gamni og alvöru í ýmsum björgunarstörfum. Má nefna fjallabjörgun, skyndihjálp og að bakka á gömlum traktor með kerru í eftirdragi. Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson heimsótti óvænt þingið og ávarpaði gesti. Ræddi hann um mikilvægi sjálfboðaliða Slysavarnafélagsins Landsbjargar í störfum sínum og kraftinn þegar til þeirra væri leitað.

DEILA