Stórmálin þrjú og fjármálin góðu

Gísli Halldór Halldórsson.

Í-listinn hefur kostað kapps um það á þessu kjörtímabili að horfast í augu við verkefnin og takast á við þau – í stað þess að halda áfram að fresta öllum hlutum, eins og gert hefur verið frá því á síðustu öld. Horft er á almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni í öllum þeim málum sem Í-listinn hefur tekist á við. Umræður hafa átt sér stað opinberlega um þessi mál, oft með mjög áberandi hætti, og þau oft tekið breytingum á grunni skoðana bæjarbúa og minnihluta bæjarstjórnar.

Nú reynir minnihluti sjálfstæðismanna mjög ákaft að gera öll mál tortryggileg, líklega má greina þarna upphaf undirbúnings fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018. Aðferðin er kunn og hefur einn þekktasti stjórnmálamaður Íslands stært sig af beitingu hennar.

Nú er því t.d. haldið fram að stór mál séu fullunnin í meirihlutanum og leidd til lykta bak við lokaðar dyr. Þrjú mál er nefnd sérstaklega og látið eins og þau komi sem þruma úr heiðskýru lofti. Málin þrjú sem eru t.d. nefnd eru sundlaugin, skjalageymslan og reiðskemman.

Reiðskemman

Á síðasta kjörtímabili lagði þáverandi bæjarstjóri og núverandi oddviti sjálfstæðismanna talsverða vinnu í að reyna að ná samkomulagi við Hestamannafélagið Hendingu, en málefni Hestamannafélagsins Hendingar hafa verið reglulega til umræðu frá því aðstaða þeirra í Hnífsdal var eyðilögð fyrir nærri áratug. Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs á þeim tíma tóku þátt í þessum viðræðum og voru þær ekki uppi á borðum bæjarráðs, bæjarstjórnar eða bæjarbúa nema þegar taka þurfti afstöðu til tilboða eða skeytasendinga milli lögfræðinga. Því miður náðist ekki saman í þessum málum á síðasta kjörtímabili.

Á þessu kjörtímabili hefur mál Hendingar reglulega komið á dagskrá bæjarráðs og bæjarstjórnar – öllum mátti vera ljóst að áfram var unnið í lausn þess. Engu að síður hefur það komið oddvita sjálfstæðismanna ítrekað á óvart á síðustu mánuðum að loks skuli liggja fyrir drög að samkomulagi við Hestamannafélagið. Kannski það séu honum vonbrigði að Í-listinn sé að leiða málið til lykta?

Ekki var hægt að setja fjárhæðir í fjárhagsáætlun ársins 2017 vegna samkomulags við Hendingu, þar sem samningur lá ekki fyrir og viðræður stóðu enn yfir, til þess voru forsendur of óljósar og viðræður á of viðkvæmu stigi. Hinsvegar voru áætlaðir umtalsverðir fjármunir á ófyrirséðar fjárfestingar 2017 og samningurinn við Hendingu þannig úr garði gerður að hægt verður að gera ráð fyrir stórum hluta kostnaðarins í síðari fjárhagsáætlunum. Fjármögnun samningsins verður því ekki vandamál.

Málið hefur sumsé verið í umræðunni á liðnum kjörtímabilum og allir áttu að vita það. Málið hefur verið í umræðu á þessu kjörtímabili og allir áttu að vita það. Málið er enn í umræðunni, og þar með samkomulagið við Hendingu, og allir eiga að vita það. Það sem raunverulega hlýtur að hafa komið fólki í opna skjöldu er að Í-listinn virðist á góðri leið með að ljúka málinu í sátt – þar sem báðir aðilar þurfa þó að gefa nokkuð eftir.

Norðurtanginn

Á síðasta kjörtímabili gerðu forsvarsmenn safna Ísafjarðarbæjar þáverandi bæjarstjóra og núverandi oddvita sjálfstæðismanna ljósa grein fyrir geymsluvanda safnanna og bentu á Norðurtangann sem lausn. Á þeim tíma hefði Ísafjarðarbær getað keypt Norðurtangann sjálfur og byggt þar upp. Í því skyni að spara fé var þó frestað að horfast í augu við vandann.

Á þessu kjörtímabili bauðst bæjarstjórn aðstaða í Norðurtanganum til tíu ára á grunni þeirrar umræðu um söfnin sem ratað hafði í fjölmiðla á síðasta kjörtímabili. Forsvarsmenn safna lýstu þörf safnanna með ítarlegum hætti og skrifuðu þarfagreiningu safnanna sem svo varð grunnur að skilalýsingu vegna leigusamnings. Bæjarstjórn ákvað svo að bregðast við þörfinni – að vísu í andstöðu við minnihlutann.

Breytingar eiga sér alltaf einhverja óvildarmenn. Það er mikil breyting að nú skuli svo margt vera að gerast í Ísafjarðarbæ, þar sem framkvæmdir við Norðurtangann eru einn þáttur málsins en Hlíðarvegurinn annar þáttur. Kannski er eðlilegt að fólki bregði þegar eitthvað er farið að gerast og skyndilega er hægt að taka afstöðu til hinna ýmsu mála?

Sundlaugin

Á síðasta kjörtímabili gerði þáverandi bæjarstjóri og núverandi oddviti sjálfstæðismanna ágæta tilraun til að nálgast laugarmál á Ísafirði með því gera „skrifborðsathugun“ á því hvort hægt væri að koma fyrir heitum pottum við Austurveg eða á Torfnesi, í stað þess að ráðast strax á hið risavaxna verkefni, 25 metra sundlaug.

Laugarmál á Ísafirði hafa verið í umræðunni frá því á síðustu öld, oftast fremur umdeild og stundum hafa þau jafnvel verið heit kosningamál – aldrei hefur þó neitt markvert verið gert.

Meirihluti Í-listans hefur farið þá leið að láta kanna til þrautar mögulegar leiðir í að finna laugarmálum á Ísafirði farveg. Miklar umræður hafa átt sér stað – eldheitar – og allt fyrir opnum tjöldum. Í-listinn hefur ekki óttast að taka þá umræðu og mun heldur ekki óttast að taka niðurstöðunum, hverjar sem þær kunna að verða. Til að hægt sé að taka endanlega ákvörðun þarf þó að draga fram, með kristaltærum hætti, hvað sé í boði.

Sundhöllin á Ísafirði verður væntanlega ekki rifin – til þess telst hún of mikill dýrgripur. Sama hvort hún verður nýtt sem sundlaug eða sem bygging til annarra nota þá mun kostnaður við viðhald, endurbætur og breytingar hlaupa á hundruðum milljóna króna – við verðum að horfast í augu við það!

Síðari tíma verkefni bíður þó áfram og það er hið fokdýra verkefni að gera 25 metra æfingalaug eða 50 metra keppnislaug. Slík aðstaða er nauðsyn hér á norðanverðum Vestfjörðum og því fyrr sem hún kemur því betra – en verðmiðinn er stór og því hlýtur m.a. að verða horft til stækkunar þeirra lauga sem fyrir eru, t.d. á Flateyri eða í Bolungarvík.

Fjármálin góðu

Fjármál og rekstur Ísafjarðarbæjar eru nú í betra horfi en áður – þó einbeittur ásetningur Í-listans sé að gera enn betur. Staðreyndin er sú að meirihluti Í-listans hefur haldið skuldum bæjarins í góðu horfi þrátt fyrir mikinn dugnað í framkvæmdum og bættri þjónustu við bæjarbúa. Þannig hefur viðmið um skuldahlutfall sveitarfélagsins lækkað verulega á kjörtímabilinu og er nú nálægt 120% en ekki eru mörg ár síðan Ísafjarðarbær komst undir lágmarksviðmiðið 150%.

Vissulega er skuldaviðmiðið hlutfall af tekjum, enda er hlutfallinu ætlað að mæla getu bæjarsjóðs til að takast á við skuldir sínar til framtíðar. Tekjur bæjarins hafa aukist vegna þess að íbúafjöldi hefur haldist óbreyttur á kjörtímabilinu og laun skattgreiðenda hafa hækkað umtalsvert.

Í-listinn hefur unnið út frá þeim markmiðum að byggja hér betri framtíð – þar skortir ekki glæsta framtíðarsýn og bjartar vonir. Í-listinn hefur talið mikilvægara að ráðast í verkefni til framfara og í að bæta þjónustu fyrir langsvelta íbúa sveitarfélagsins, heldur en að greiða hratt niður skuldir. Við höfum hreinlega ekki efni á að bíða lengur eftir framtíðinni, eins og gert hefur verið undanfarna áratugi.

Framtíðin bíður ekki og við verðum að taka á móti henni opnum örmum.

Íbúalýðræði og leyndarhyggja

Í-listinn hefur tekist á við ýmis umdeild mál á kjörtímabilinu. Ætíð hafa þó fulltrúar Í-listans verið tilbúnir til að ræða málin, bæði við fulltrúa minnihlutans og við hinn almenna bæjarbúa. Stundum greinir fólk þó verulega á, þannig að ekki er hægt að ná sameiginlegri niðurstöðu. Auðvitað getur minnihluta bæjarstjórnar þótt súrt í brotið þegar hann fær ekki vilja sínum framgengt, en niðurstaða mála hlýtur á endanum alltaf að ráðast í bæjarstjórn og þá ræður meirihluti atkvæða úrslitum.

Ítrekað hafa sjálfstæðismenn í bæjarstjórn óskað eftir frestun mála til að fá að skoða þau betur, ítrekað hefur verið orðið við óskum þeirra um frestun og jafnvel stundum án þess að viðkomandi bæjarfulltrúar hafi aðhafst nokkuð frekar í viðkomandi málum þegar frestun fékkst.

Dæmi um stórmál þar sem meirihluti og minnihluti voru einhuga er skólamálið á Flateyri. Íbúar á Flateyri voru hinsvegar á annarri skoðun. Í framhaldi af opnu samtali við íbúa á Flateyri var hægt að koma málum í farveg sem íbúar og bæjarstjórn gátu sameiginlega unað við. Þetta gerðist vegna þess að meirihluti bæjarstjórnar er tilbúinn að hlusta á íbúa – og tilbúinn til að leita sátta.

Aldrei hafa bæjarfulltrúar Í-listans sýnt neina feimni við að taka opinbera umræðu um málin og þau geta tekið breytingum eftir skoðanaskipti við íbúana – og minnihluta bæjarstjórnar. Þannig er alvöru íbúalýðræði – málin uppi á borðum og til umræðu og íbúar geta haft áhrif.

Gísli Halldór Halldórsson

Bæjarstjóri

DEILA